141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[21:43]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Evrópusambandið er að aðlaga sig íslensku fiskveiðistjórnarkerfi. Það breytir ekki heildarumgjörðinni og það væri gott ef hæstv. utanríkisráðherra gæti útskýrt það. Ef við tökum til að mynda bara einn þátt, deilistofnana, makrílinn, hvernig sér hæstv. utanríkisráðherra það fyrir sér að við fáum einhverja varanlega undanþágu á því? Þetta er eitt af grundvallaratriðum Evrópusambandsins. Það er einmitt þess vegna sem utanríkisráðherra er alltaf minntur á — það kemur í fjölmiðlum í hvert einasta sinn sem utanríkisráðherra er úti að fjalla um þessi mál, ráðamenn segja það og það berst inn í fréttir hér heima — að það eru engar varanlegar undanþágur í boði. (Gripið fram í.) Það eru sérlausnir eins og hæstv. utanríkisráðherra talaði um.

Hvað eru sérlausnir? (Gripið fram í.) Sérlausnir felast aldrei í því að við séum að fara að ná einhverju í gegn eins og til að mynda fullum yfirráðum yfir deilistofnum. Þetta veit hæstv. utanríkisráðherra og þetta er ástæðan fyrir því að ekki hefur verið hægt að taka sjávarútvegsmálin fyrir fyrr. Það er vegna þess að það liggur ljóst fyrir að Ísland verður að gangast undir regluverk Evrópusambandsins.

Ég vil meina það, virðulegi forseti, af því að þetta var á spaugsömum nótum milli hv. þm. Jóns Bjarnasonar og hæstv. utanríkisráðherra hér áðan, að það sé ekkert spaugsamt við þetta. Það er alveg grafalvarlegt að hæstv. utanríkisráðherra skuli ítrekað, aftur og aftur, bæði hér í ræðustól og við fjölmiðla, halda fram svo rakalausum þvættingi.