141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:53]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það þýðir náttúrlega ekki að eiga í þessu orðaskaki við hv. þingmann. Við sitjum saman í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Yfirleitt eru umræðurnar svona á fundum nefndarinnar.

Förum yfir þetta einu sinni enn. Frumvarpsdrögum er skilað til þingsins. Þingmenn flytja málið hér, ekki þvert á flokka eins og stjórnarskipunarlög eiga að vera. Það á að vera rík samstaða um breytingar á stjórnarskránni. Það var ekki þannig. Þessu var því breytt í þingmannamál. Sumir sem sátu í stjórnlagaráði sögðu að þetta yrði að fara tafarlaust í þjóðaratkvæðagreiðslu og mætti ekki breyta stafkrók í því. Þá var málinu úthýst úr þinginu og falið lögfræðiteymi að lesa frumvarpið lagatæknilega yfir en lögfræðihópurinn hafði svo þröngt umboð að hann mátti ekki gera efnislegar breytingar. Frumvarpið kom þannig inn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og að tillögu lögfræðihópsins voru gerðar 75 breytingar þar á. Þannig fer frumvarpið til Feneyjanefndarinnar.

Þegar málið kemur inn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd milli 1. og 2. umr. — og 2. umr. stendur nú — gerir meiri hlutinn tillögu um að gera 45 breytingartillögur í viðbót á frumvarpinu, þannig að við erum komin langt yfir 100 breytingartillögur á þessu eina frumvarpi. Og ég minni á að hér er verið að fjalla um stjórnarskrána.

Varðandi rök hv. þm. Lúðvíks Geirssonar vil ég segja: Megnið af þeim breytingartillögum sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar kom með fyrir 2. umr. að skjalinu eru ekki breytingartillögur sem sérfræðingar hafa verið að benda á að þurfi að gera. Sem dæmi má nefna upplýsingakaflann sem er framarlega í frumvarpinu. Búið er að taka út allar breytingartillögurnar frá lögfræðihópnum sem voru þó til bóta, taka þær út og setja inn kaflann sem kom upphaflega frá stjórnlagaráði, (Forseti hringir.) kafla sem allir sérfræðingar voru sammála um að væri ekki tækur. Svona má lengi telja, virðulegi forseti. 111. gr. um fullveldisframsalið — það hefur enginn séð hana fyrr. Svona eru vinnubrögðin. (Forseti hringir.) Ég hafna þessu.