141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Menn geta auðvitað haft ýmsar skoðanir í þinginu á hlutum eins og gjaldmiðilsmálum en það eru tveir menn í hverju landi sem geta ekki leyft sér að tala illa um eigin gjaldmiðil, hvað þá að halda því fram að hann sé ónýtur. Það eru seðlabankastjóri og fjármálaráðherra, fólk sem hefur það að atvinnu að verja gjaldmiðilinn. Eina ferðina enn eru hæstv. fjármálaráðherra Íslands og seðlabankastjóri búnir að koma sér í heimsfréttirnar fyrir að segja að gjaldmiðill eigin lands sé ónýtur. Á forsíðu fréttarits Bloomberg í gær, aðalfréttarits um fjármál, kom fram að seðlabankastjóri Íslands teldi að hans eigin gjaldmiðill, gjaldmiðillinn sem hann vinnur við að verja, væri hugsanlega ónýtur. Um leið var auðvitað rifjað upp að fjármálaráðherra Íslands hefði sagt að krónan færi líklega aldrei aftur á flot. Telja menn að einhver sem sér slíka frétt muni í framhaldinu fjárfesta á Íslandi eða lána landinu fjármagn?

Á sama tíma ver Seðlabankinn hvað eftir annað milljónum evra, af lánsfé vel að merkja, í að halda uppi gengi krónunnar. Seðlabankastjórinn vegur með orðum sínum að gjaldmiðlinum en eyðir svo þeim mun meira af lánsfé í að halda honum uppi. Það er algerlega óásættanlegt. Þessir embættismenn eru báðir í störfum sínum á vegum Alþingis og ekki hægt fyrir Alþingi að láta þetta óátalið. Það hefur ekki bara áhrif á stöðu ríkisins og sveitarfélaganna og möguleika þeirra á að ná sér á strik heldur hefur það að sjálfsögðu líka gríðarlega mikil áhrif á fyrirtækin í landinu og heimilin. Eða halda menn að gengi gjaldmiðilsins styrkist og verðbólga haldist í skefjum með því að seðlabankastjóri landsins og fjármálaráðherra segi að gjaldmiðillinn sé ónýtur? Er ekki líklegra að áhrifin séu á hinn veginn með hækkandi lánum heimilanna og versnandi stöðu fyrirtækjanna?