141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar afgreiddi í byrjun vikunnar frumvarp um neytendalán til 2. umr. í þinginu með þeim veigamiklu breytingum að fjármálastofnunum verður í framtíðinni skylt að upplýsa lántakendur um þau áhrif sem verðtryggingin hefur á lántökukostnaðinn. Það er í raun og veru smánarblettur á íslensku fjármálakerfi sem verið hefur um áratugaskeið að slíkar stofnanir, fjármálastofnanir í landinu, hafi komist upp með að lána fjármagn til nauðþurfta eins og kaupa á húsnæði fyrir fjölskyldur í landinu án þess að vera skyldugar til að upplýsa neytendur um raunverulegan lántökukostnað og þá sérstaklega þann kostnað sem rekja má til verðtryggingarinnar.

Það er eitt lykilatriðið í þeirri gagnrýni sem kemur fram í áliti sérfræðings Evrópusambandsins við fyrirspurnum dr. Elviru Méndez Pinedo um framkvæmd verðtryggingarinnar á Íslandi. Eftir stendur spurningin hvernig við getum tryggt það í framtíðinni að almenningur á Íslandi geti treyst því þegar hann tekur húsnæðislán á tilteknum forsendum að þeim sé ekki einhliða kollvarpað af hálfu fjármálastofnana vegna áhrifa verðbólgu og vaxtahækkana. Ein leið sem væri í samræmi við evrópska neytendalöggjöf væri að gerður væri bindandi samningur milli lántakenda og fjármálastofnunar um heildarlántökukostnað þar sem fram kemur áætlun bankans um þróun vaxta og verðbólgu og að fjármálastofnunum sé óheimilt að innheimta hærri gjöld en nemur þeim samningi. Ef verðbólga og breytilegir vextir hækka umfram spá bankans verði hann að leita samninga við lántakandann um viðbrögð við breyttum forsendum.

Ég hef þegar óskað eftir því við formann hv. efnahags- og viðskiptanefndar að við ræðum það atriði sérstaklega milli 2. og 3. umr. í efnahags- og viðskiptanefnd. Meginmálið er að meðan við erum enn þá með krónuna þurfum við að skoða vandlega allar leiðir til að skipta herkostnaðinum af henni með réttlátum hætti milli almennings og fjármálastofnana, en ekki velta honum öllum yfir á herðar almennings eins og við höfum búið við í landinu allar götur frá því að Framsóknarflokkurinn hafði forgöngu um að innleiða verðtrygginguna fyrir rúmum 30 árum.