141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

lyfjalög.

460. mál
[17:00]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í skemmstu máli gengur frumvarpið út á að búa til regluverk utan um eftirlit með innflutningi á lyfjablönduðu fóðri og sömuleiðis að setja reglur til að tryggja fjármögnun þessa eftirlits. Því má kannski segja að frumvarpið sé flutt undir kjörorðinu „allur er varinn góður“ því að sannleikurinn er sá að ekkert lyfjablandað fóður er flutt til landsins og samkvæmt þeim upplýsingum sem við fengum í velferðarnefnd stendur það heldur ekki til. Þetta er því eins konar tómt mengi.

Gallinn við frumvarpið er hins vegar að það felur í sér heilmikla gjaldtökumöguleika, í þessu tóma mengi [Hlátur í þingsal.] og gæti falið í sér má segja nánast opinn tékka. Af þeim ástæðum meðal annars treysti ég mér ekki til að styðja frumvarpið.