141. löggjafarþing — 86. fundur,  25. feb. 2013.

mál á dagskrá.

[15:48]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Nú getur háttað svo til að mál sem sett eru á dagskrá þingsins séu ekki tekin fyrir af einhverjum sökum. Fyrir því geta verið margvíslegar ástæður. Ég vildi hins vegar taka fram að ég held að það sé ekki tilefni til að taka mál af dagskrá að hæstv. ráðherra viðkomandi málaflokks sé ósáttur við efnislega niðurstöðu þeirrar nefndar sem um málið hefur fjallað í þinginu.

Það kemur auðvitað fyrir að málum sé hnikað til en ég tek undir með þeim sem hér hafa talað um að afgreiðsla hv. allsherjarnefndar á þessum tveimur málum, þ.e. annars vegar að afgreiða þessa þingsályktunartillögu á hennar forsendum og hins vegar að afgreiða ekki frumvarp hæstv. ráðherra á þeim forsendum sem hann leggur upp, felur í sér mjög skýran vilja af hálfu þeirrar nefndar. (Forseti hringir.) Það kann vel að vera að hæstv. ráðherra sé ósáttur við það en það getur ekki komið í veg fyrir að málið komist fyrr eða síðar á dagskrá þingsins.