141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

breyting á lögum um almannatryggingar.

[10:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Það er pólitísk spurning. Það sem búið er að meta í ráðuneytinu er hversu mikið rými þurfi í ríkisfjármálaáætlun fyrir þessu. Það er síðan pólitísk ákvörðun með hvaða hætti við forgangsröðum. Ég held að um þetta mál hafi verið þverpólitísk samstaða. Þetta mál kemur óbreytt úr þverpólitískri nefnd þar sem allir flokkar á Alþingi, m.a. fulltrúi úr þingflokki hv. þingmanns, sátu í þannig að ég hefði haldið að í þessum sal ríkti þá þverpólitísk samstaða um að láta málið ná fram að ganga. Þá hljótum við öll sem erum hér inni að leggjast á eitt um að forgangsraða þannig að svo megi verða.

Ég held að hv. þingmaður ætti að eiga samtal við fulltrúa sinn í þessari nefnd um það hvort og hvernig viðkomandi hefði séð fyrir sér að koma þessu fyrir.

Um þetta er greinilega að nást samstaða og ég styð það að við förum þessa leið. Þá þurfum við að einhenda okkur í að forgangsraða í þágu þess. Það er verkefni stjórnmálamanna, ekki fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins.