141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

vegurinn um Súðavíkurhlíð.

[10:50]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir jákvæðar undirtektir við málaleitan mína. Auðvitað er okkur það öllum ljóst að ákvarðanir af þessu tagi verða ekki teknar að óathuguðu máli. Þess vegna er að mínu mati svo mikilvægt að við förum í það núna við þessar aðstæður í ljósi þess sem ég var að segja, að vegurinn um Súðavíkurhlíðina er nánast ónýtur, það þarf að fara þar í miklar framkvæmdir til þess að styrkja hann þannig að hann þoli þá umferð sem um veginn fer.

Í öðru lagi blasir við, sem við höfum svo sem vitað alllengi, að vegurinn um Súðavíkurhlíð er hættulegur. Hann er mjög nauðsynlegur hluti af samgöngukerfi norðanverðra Vestfjarða, eins og ég hef þegar rakið. Aðalatriðið finnst mér vera að menn hefji sem fyrst rannsóknir á mögulegum jarðgangakostum þarna og skoði af fullri alvöru því að það er alveg ljóst mál að framtíðarlausnin sem við getum boðið íbúunum á norðanverðum Vestfjörðum upp á hlýtur að lokum að felast í jarðgöngum.