141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[20:15]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Hér er skyndilega við lok þings og raunar rétt fyrir kosningar komin fram alveg ný nálgun á þessi stjórnarskrármál. Það var svo sem orðið tímabært að menn viðurkenndu það sem hefur legið fyrir mjög lengi, að stóra stjórnarskrárfrumvarpið mundi ekki klárast á þessu kjörtímabili. Í fyrsta lagi er nú ekki meiri hluti fyrir því í þinginu og í öðru lagi er tíminn fyrir nokkru orðinn allt of skammur til að raunhæft væri að klára það í ljósi þess gríðarlega fjölda athugasemda sem borist höfðu frá sérfræðingum um ágalla á frumvarpinu. Enn er ekki búið að leysa úr þeim göllum öllum. Raunar hefur verið bætt inn aftur ýmsum göllum sem höfðu verið teknir út. En það er önnur saga, nú er loksins búið að viðurkenna það sem ekki mátti viðurkenna, væntanlega af ótta við vantrauststillögu. Þá er vantrauststillagan komin fram svoleiðis að þetta setur málið auðvitað alveg í nýja stöðu.

Hér er lagt til að bætt verði inn í stjórnarskrána nýju ákvæði um stundarsakir, bráðabirgðaákvæði í stjórnarskrá sem heimili breytingu á stjórnarskránni á miðju kjörtímabili. Þetta ber það með sér að eiga að verða einhvers konar redding vegna þess að menn féllu á tíma með vinnu við breytingar á stjórnarskránni.

Nú vil ég ítreka það sem ég hef svo sem nefnt alloft áður, það var algjör óþarfi að halda þannig á málum að menn féllu á tíma með breytingar á stjórnarskrá. Hér höfðum við fjögur ár til að fara í gegnum þessa vinnu og nokkur ár til að nýta þá vinnu sem kom út úr þjóðfundinum, vinnu stjórnlagaráðs og auðvitað þeirra sem hafa farið í gegnum stjórnarskrármálin áður. Sá tími var ekki nýttur. Málið var ekki sett aftur á dagskrá fyrr en ríkisstjórnin neyddist til að semja við Hreyfinguna til að halda sér gangandi, veita sér minnihlutavernd. Þá er þetta mál Hreyfingarinnar allt í einu dregið upp aftur — eða nálgun Hreyfingarinnar skulum við segja því að málið sem slíkt, breytingar á stjórnarskrá, varðar náttúrlega alla flokka. Nálgun Hreyfingarinnar var sett á dagskrá löngu eftir að allir tímafrestir voru útrunnir þegar ríkisstjórnin þurfti að leita eftir stuðningi Hreyfingar. Fyrir vikið hefur þetta mál allt verið mjög markað af því. Afraksturinn sjáum við núna, það er búið að fresta stóra málinu, breytingum á stjórnarskránni, og í staðinn er verið að reyna að koma í gegn einhvers konar reddingu til að hægt sé að halda áfram með málið á næsta kjörtímabili eins og ekkert hafi í skorist.

Þá er mikilvægt að hafa í huga að það er mikil samstaða um að halda beri áfram vinnunni við breytingar á stjórnarskránni á næsta kjörtímabili. Það er spurning hvernig best sé að standa að því. Líkast til hefði verið æskilegt að menn reyndu meira að komast að sameiginlegri niðurstöðu um hvernig það er gert áður en þeir lögðu fram tillögu. Þó verður maður að hafa skilning á því að þegar svona fáir dagar eru eftir er ekki mikill tími til þess að velta vöngum.

Jæja, snúum okkur að afrakstrinum, þessari tillögu um tímabundið ákvæði sem heimili breytingar þannig að ekki þurfi kosningar á milli, breytingar á 79. gr. stjórnarskrárinnar. Þá grein mætti í raun kalla samstöðuákvæðið eða sáttaákvæðið í stjórnarskránni vegna þess að það er meðal annars til þess ætlað að neyða menn eða ýta þeim að minnsta kosti í það, þingmönnum ólíkra flokka, að ná víðtækri sátt um allar breytingar sem gerðar eru á stjórnarskrá með þá vitneskju að það koma kosningar og nýtt þing áður en breytingin er staðfest, þ.e. ef menn vinna ekki saman skapa þeir þá hættu að breytingarnar sem verið er að gera á stjórnarskránni verði að kosningamáli og að eftir kosningar muni nýr meiri hluti ekki staðfesta breytinguna. Þessi grein hefur því í raun gegnt því hlutverki að ýta á eftir sem víðtækastri sátt um breytingar á stjórnarskrá.

Það er allt önnur nálgun en farin hefur verið á þessu kjörtímabili þegar kemur að stjórnarskrárbreytingum. Það má þannig segja að þetta ákvæði, 79. gr. stjórnarskrárinnar sem hér er talað um að breyta til bráðabirgða, hafi sannað gildi sitt á þessu kjörtímabili. Með því að sniðganga þetta sáttaákvæði eru stjórnarflokkarnir búnir að eyðileggja málið fyrir sjálfum sér og öðrum með því að líta fram hjá mikilvægi þess að ná víðtækri sátt um málið.

Þá hlýtur maður að spyrja: Er eðlilegt framhald á því þegar sáttaákvæðið hefur sýnt fram á mikilvægi sitt að taka það úr sambandi fyrir næsta kjörtímabil? Hvaða skilaboð eru í því fólgin? Eru það þau skilaboð að menn vilji geta gert hlutina á næsta kjörtímabili á svipaðan hátt og á þessu, vilji ekki þurfa að ná hinni víðtæku sátt með því að gera tímabundna breytingu á 79. gr.? Þá mundu menn ef til vill benda á að engu að síður þurfi töluvert til að koma til að breytingin nái í gegn.

Með leyfi forseti stendur í 1. gr. frumvarpsins:

„Samþykki Alþingi frumvarp til laga um breytingu á stjórnarskrá með minnst 3/5 hlutum greiddra atkvæða skal það borið undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Atkvæðagreiðslan skal fara fram í fyrsta lagi sex mánuðum og í síðasta lagi níu mánuðum eftir samþykkt frumvarpsins á Alþingi.“

Jú, jú, þarna er vissulega ákveðið ferli sem þarf að fara í gegnum sem er stærra en hefðbundnar lagabreytingar. En þá ber aftur að líta til sögu þess hvernig á málinu hefur verið haldið á þessu kjörtímabili þar sem ekki var lögð nein áhersla, heldur þvert á móti, á að ná víðtækri sátt um málið. Þess í stað var lagt ofurkapp á að keyra einhvers konar orðræðu í umræðunni í fjölmiðlum um það að þeir sem vildu gera breytingarnar eins og ríkisstjórnin vildi hafa þær — afsakið, frú forseti, nú fer ég ekki með rétt mál, þeir sem vildu gera breytingarnar eins og afmarkaður hluti stjórnarflokkanna vildi gera þær væru fulltrúar almennings og verðir lýðræðis en þeir sem vildu fara einhverja aðra leið eða hefðu eitthvað við þetta að athuga, vildu jafnvel bara gera lagatæknilegar breytingar í sumum tilvikum, voru í sumum tilvikum kallaðir óvinir alþýðunnar, að þeir færu gegn lýðræðinu.

Þetta hélt engu vatni en ofurkapp var lagt á þessa orðræðu. Og þá skoðar maður þá tillögu í því samhengi að hægt sé að breyta stjórnarskránni innan kjörtímabils en með þjóðaratkvæðagreiðslu. Maður veltir fyrir sér hvort hættan sé þá sú að sama leið verði farin aftur, að nýr meiri hluti í þinginu, sem við vitum ekkert hvernig mun líta út, verði þá í aðstöðu til að keyra málið í gegn og reka linnulausan áróður um að þeir sem hafi eitthvað við málið að athuga séu óvinir lýðræðis og reyna að tryggja því þannig fylgi í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Við sáum nefnilega hvernig þessum aðferðum var beitt í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs sem reyndar voru ekki beinlínis tillögur stjórnlagaráðs heldur spurning um hvort leggja ætti þær tillögur til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Þar var seilst mjög langt í því að draga upp mjög ranga mynd af ferlinu öllu. Það er að minnsta kosti, svo við höfum varann á, mjög umdeilanleg mynd eins og sást á því, svo ég nefni eitt dæmi, að forseti Íslands túlkaði áhrifin á embætti sitt og hlutverk forsetans þveröfugt við það sem margir af talsmönnum tillögunnar gerðu. (Utanrrh.: Og hann hafði rétt fyrir sér.) Og hann hafði rétt fyrir sér, kallar hæstv. utanríkisráðherra fram í. Ég er sammála því. En maður veltir fyrir sér hvort ekki sé hætta á því að málið verði keyrt áfram á sama hátt næst, gerð sams konar tilraun. Er þá ekki betra að viðhalda sáttaákvæðinu í stjórnarskránni, ákvæðinu sem neyðir þingmenn til að vinna saman til að ná fram breytingum á stjórnarskrá, ákvæðinu sem sannaði gildi sitt á þessu kjörtímabili, leyfa því að halda gildi sínu en um leið sammælist formenn stjórnmálaflokkanna um það, a.m.k. þeir sem vilja taka þátt í því, að halda ferlinu áfram og nýta þá vinnu sem unnin hefur verið í málinu fram að þessu?

Með því móti gæfist nægur tími á næsta kjörtímabili til að vinna málið almennilega og þegar kemur að stjórnarskrárbreytingum eru fjögur ár ekki langur tími, eins og við sjáum til dæmis hjá Norðmönnum sem eru að yfirfara mannréttindakafla — vel að merkja yfirfara, ekki skrifa nýjan — sem sagt einn kafla stjórnarskrár sinnar og gera ráð fyrir að ljúka þeirri vinnu 2017. Þeir eru byrjaðir á henni fyrir nokkru.

Hér er verið að tala um heildaryfirferð á endurskoðun á íslensku stjórnarskránni. Er nokkuð óeðlilegt við það að menn taki sér tíma í þá vinnu í stað þess að miða við það að keyra málið í gegn strax í byrjun næsta þings til að geta klárað það fyrir 70 ára afmæli lýðveldisins til þess eins að geta fengið skemmtilega fyrirsögn um það að menn ætli að klára á 70 ára afmæli lýðveldisins? Væri ekki skynsamlegra að leyfa sáttaákvæðinu að halda gildi sínu, vinna þetta vel og faglega í sameiningu, stjórn og stjórnarandstaða næsta kjörtímabils, og klára svo málið í lok þess? Það yrði reyndar heildaryfirferð stjórnarskrárinnar á mettíma þrátt fyrir allt miðað við það sem við sjáum í löndunum í kringum okkur.

Mér sýnist, virðulegur forseti, að saga þessa máls á undanförnu kjörtímabili, því sem nú er að ljúka, sýni einmitt að það væri hin skynsamlega leið og þar af leiðandi sé þetta frumvarp til stjórnarskipunarlaga um bráðabirgðaafnám þessa sáttaákvæðis, að taka það úr sambandi, mjög varasamt.