141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[20:47]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Auðvitað eigum við að nálgast málið með þessum hætti. Hvort við gerum það með því að hafa 2/3, 3/5, þröskuld í lágmarksþátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslu eða annað er það sem við eigum að ræða. Við þurfum líka að læra af meðferð málsins, hvort heldur sem það er á þessu þingi, fyrri þingum eða hvernig sem það er, hvernig við getum nálgast þetta verkefni. Stjórnarskráin er ekki einhver lög sem við viljum hringla með og gera breytingar á eftir stjórnarmeirihlutanum í landinu á hverjum tíma. Þetta er þjóðfélagssáttmáli eins og stundum er sagt, kletturinn í hafinu. Við erum öll sammála um það. Ef við hefðum nálgast verkefnið á þennan hátt miklu fyrr hefðum við náð að klára. Það var að mínu viti algjört brjálæði að fara í heildarendurskoðun á stjórnarskránni með þeim tímaramma sem settur var upp. Það er mín persónulega skoðun.

Stjórnlagaráði var á sínum tíma gefinn of stuttur tími. Það voru deilur um hvernig staðið var að kosningu til stjórnlagaþings sem var ógilt og síðan var stjórnlagaráð skipað. Við þekkjum þetta allt saman. En ég vil ekki festast þarna. Við eigum að horfa til framtíðar og reyna að komast að einhverri lausn um það hvernig við getum lært af málinu því að stjórnmálamenn koma og fara eins og við vitum. Það er mikilvægt að gera allt sem við getum til að taka þetta mál í þann farveg að við getum lært af meðferð þess til framtíðar. Yfirstandandi kjörtímabil breytir engu, það er auðvitað liðið en við þurfum að reyna að breyta og læra til framtíðar. Ég er alveg sannfærður um að við hæstv. utanríkisráðherra yrðum fljótir að ná samkomulagi um það. Við tölum fyrir okkur prívat og persónulega í því máli.