141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

vatnalög og rannsóknir á auðlindum í jörðu.

634. mál
[22:03]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil á þessu stigi svo sem ekki tjá mig um efnisatriði málsins enda er það nýframkomið og hefur ekki gefist mikið ráðrúm til að kynna sér það vegna annarra mála sem hér hafa verið til umræðu. Ég ætla að sjálfsögðu ekki að leggjast gegn því að þetta mál fari til athugunar í atvinnuveganefnd eins og gert er ráð fyrir en í ljósi þess hversu skammt er eftir af þinginu velti ég fyrir mér hvort hæstv. ráðherra lítur svo á að í því séu einhver ákvæði sem nauðsyn beri til að afgreiða innan fárra daga áður en þing fer heim, hvort þarna eru einhver slík atriði sem nauðsynlegt sé að tekið verði á á næstu dögum og hvaða hugmyndir hæstv. ráðherra hefur þá um framhald málsins.