141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það er dapurt að hlusta á málefnaþurrð þingmanna stjórnarflokkanna sem koma hingað upp með hrein ósannindi og hafa ekki neitt annað betra fram að færa en að ráðast með ósannindum og rangtúlkunum að öðrum flokkum.

Í gær var frétt á Eyjunni, að ég held, þess efnis um að fjárgeta heimilanna væri hætt að aukast og ég staldraði aðeins við þetta. Mér fannst þetta mjög sérkennilegt. Þetta var byggt á fréttum um að íslenskum ferðamönnum á leið til útlanda hefði fækkað og neyslan væri þannig að minnka innan lands. Það er augljóst mál að það eru færri íslenskir ferðamenn og þeir ferðamenn sem halda utan eru flestir að fara í vinnuferðir til Noregs þannig að ferðamennirnir eru enn færri en ætla mætti.

Það er líka augljóst mál að geta heimilanna til að standa undir skuldum hefur minnkað vegna þess að fólk er búið að taka út séreignarsparnað sinn. Það hefur því aldrei verið spurning um að hún hafi aukist. Menn voru hreinlega að bjarga sér. Hvað þarf að gera? Það þarf auðvitað að taka á skuldaleiðréttingum og afnema verðtryggingu á neytendalán. Það þarf að koma til móts við atvinnulífið, styðja atvinnuuppbyggu, sérstaklega gagnvart litlum og meðalstórum fyrirtækjum, einfalda regluverkið og skattkerfið. Það þarf að lækka almenna tryggingagjaldið sem leggst sérstaklega hart á þessi fyrirtæki. Við framsóknarmenn erum nefnilega með forgangsröðunina á hreinu. Það virðast aðrir þingmenn annarra flokka, sérstaklega stjórnarflokkanna, ekki vera. Það eru heimilin sem þarf að vinna fyrir hér í þinginu. Það þarf atvinnu fyrir alla og það þarf vöxt í hagkerfinu.

Spurt hefur verið: Getið þið staðið við þetta? Svarið er: Já, við getum það. Við höfum viljann og við höfum staðfestuna til þess.