141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

störf þingsins.

[11:04]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil benda hv. stjórnarþingmönnum á að fara yfir sín eigin kosningaloforð áður en þeir tala um kosningaloforð stjórnarandstöðunnar því að við vitum öll hver aðstöðumunurinn er hjá stjórn og stjórnarandstöðu varðandi það að koma loforðum sínum í framkvæmd. Stjórnarandstaðan hefur lagt fram mörg mál sem ekki hafa einu sinni fengist rædd í þinginu. (Gripið fram í.)

Til áréttingar, bara til þess að minna hv. þingmenn sem ekki geta setið á sér og eru farnir að kalla fram í: Hvar er skjaldborg heimilanna? Ég set það fram til umhugsunar.

Það sýnir metnaðarleysi ríkisstjórnarflokkanna að við gerð fjárlaga fyrir árið 2011 voru settar 11,2 millj. kr. til þess að greina skuldavanda heimilanna. Núna er fjárlaganefnd búin að afgreiða frá sér lokafjárlög 2011. Þar er lagt til að fjárheimildin verði felld niður vegna þess að ekki hefur verið þörf á því að nýta hana. Ráðuneytið gerir engar athugasemdir við það, akkúrat ekki neinar. Á árinu 2012 var heimildin heldur ekki nýtt, þær 11,2 millj. kr. sem settar voru í fjárlög 2011 til þess að greina skuldavanda heimilanna hafa ekki verið nýttar, ekki ein einasta króna. (VigH: Hneisa.) Það þarf auðvitað ekki að segja meira en það um metnað ríkisstjórnarflokkanna til þess að greina skuldavanda heimilanna.

Síðan vil ég minna hæstv. ríkisstjórn og hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna á eftirfarandi: Fyrsta verk ríkisstjórnarinnar var aðför að ellilífeyrisþegum og öryrkjum. Ég rifja það upp hér hvet hv. stjórnarþingmenn til þess að lesa fjáraukalög ársins 2010 vegna þess að í umræðum um málið og ábendingum sem komu frá forsvarsmönnum þeirra var bent á að þær skerðingar sem lágu fyrir í bandorminum á miðju ári 2009 væru miklu meiri en ráð var fyrir gert. Það staðfestist í fjáraukalögum fyrir sama ár, sérstaklega (Forseti hringir.) á árinu 2010, að skerðingarnar voru miklu meiri en reiknað var með, þar munaði milljörðum.