141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[11:53]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina á frumvarpinu sem er stórt og mikið, 123 greinar ásamt ýmsum bráðabirgðaákvæðum. Þótt gildistaka laganna sé 1. júlí á þessu ári þá held ég að allir geri sér grein fyrir því að svo verður ekki.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um það sem kemur fram í 7. gr. frumvarpsins sem snýr að þeim reglugerðarheimildum sem ráðherrann hefur. Þar segir að ráðherra hafi heimild til að setja reglugerðir um einstök atriði svo sem eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar. Í ljós kom í meðförum fjárlaga fyrir árið 2013 þar sem fjárlaganefndin fundaði með forsvarsmönnum Tryggingastofnunar að þeir hefðu kallað eftir því að fá auknar heimildir til eftirlits til að reyna að koma í veg fyrir það svindl sem hefur því miður viðgengist í kerfinu. Getur ráðherra upplýst okkur um það hvernig hann sæi það þróast eða gerast og hvort eitthvað hafi verið gert í millitíðinni í því að auka heimildir Tryggingastofnunar?

Mjög er varað við því af hálfu forsvarsmanna Tryggingastofnunar að fara í þennan niðurskurð. Hann mundi kosta mun meira fyrir ríkissjóð en að sleppa honum, vegna þess að þá dregur úr eftirliti og þeir sem eru á annað borð að reyna að svindla eða bora gat á kerfið eru mjög meðvitaðir um ef það dregur úr eftirliti. Ég vil spyrja hvort hæstv. ráðherra gæti kannski upplýst okkur um hvernig það hafi gengið fyrir sig og hvernig þau mál standa núna, vegna þess að þessar athugasemdir komu fram frá forsvarsmönnum Tryggingastofnunar við gerð fjárlaga 2013.