141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[12:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla ræðu. Mig langar að spyrja hann einfaldra spurninga. Nú var gengið út frá því í nefndinni að enginn mætti tapa á þessari breytingu, þ.e. svona breytingu þegar menn taka af einn bótaflokk og skerða beingreiðslur eða frítekjumörk og annað slíkt sem veldur því óhjákvæmilega að einhver hækkar og annar lækkar, og það var mottó í nefndinni að það ætti eiginlega enginn að tapa. Er hv. þingmaður sáttur við svoleiðis vinnubrögð? Finnst honum í lagi þegar menn horfa til þess, sem ég nefndi í ræðu minni, að gífurleg fjölgun lífeyrisþega verður á næstu árum? Finnst honum siðferðilega rétt að nota svona viðmið sem valda auknum kostnaði, að óþörfu að mínu mati? Telur hann þörf á slíkum kostnaði? Telur hann að við þurfum ekki að horfa til þeirrar holskeflu sem er að dynja á okkur í árgöngum?

Svo vil ég spyrja um framfærsluuppbótina sem var notuð til þess að hækka lífeyri umtalsvert, um 20%. Hefði ekki verið eðlilegra að skerða hana á einhvern máta? Nú vitum við það báðir að lífeyrir hefur skerst, hann hefur ekki verið hækkaður eins og verðlag eða laun undanfarin tvö eða þrjú ár vegna slæmrar stöðu ríkissjóðs, og það er kannski heilmikið sem lífeyrisþegar eiga inni út af því. Telur hann að ekki þurfi að horfa mikið til þess? Hefði ekki átt að skerða framfærsluuppbótina eitthvað til viðbótar til þess að mæta holskeflu af tvöföldun árganga á næstu 15 árum?