141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[13:49]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kann vel að vera að kerfið sé enn þess eðlis að það muni ekki alveg allir skilja það, en við vitum það bæði, ég og hv. þingmaður, að verið er að einfalda það til mikilla muna og ég held að hann muni alveg viðurkenna það með mér. Það er mikill munur á þessu.

Varðandi tekjurnar, ég vona að hv. þingmaður sé sammála mér um að það sé verulega til bóta að allar tekjur vegi nú jafnt, það sé ekki þannig að atvinnutekjur vegi öðruvísi en lífeyristekjur.

Hvað varðar fjármagnstekjur verð ég að viðurkenna að mér finnst ekkert óeðlilegt við það. Það mætti svo sem alveg hugsa sér eitt, en það er náttúrlega svo flókið að það mundi bara gera kerfið flóknara, að eitthvert gólf væri kannski á því að fólk gæti átt einhvern smásparnað. Ég er jafnaðarmaður og mér finnst ekkert óeðlilegt að fjármagnstekjur vegi að sjálfsögðu inn í eins og aðrar tekjur.

Við hv. þingmaður ræddum það oft meðan hann átti sæti í félags- og tryggingamálanefnd að við vitum það alveg varðandi ýmsar tekjur sem koma inn, sem geta verið í gegnum félagsþjónustuna, geta verið meðlög, barnabætur og annað slíkt, að við þyrftum í raun og veru að hafa það þannig að allt tekjuflæði til heimilisins vægi jafnþungt. En við verðum líka að gera okkur grein fyrir að það geta verið svo margs konar aðstæður. Það er svo erfitt að tala um þetta allt saman svona almennt og það gangi bara eitt yfir alla, en að sjálfsögðu þurfum við að huga að því.

Hér er stigið eitt skref. Við stígum það skref að einfalda almannatryggingakerfið. Síðan er í raun og veru allt annað tekjustreymi eftir sem við höfum oft rætt.