141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[14:27]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það mál sem við ræðum núna á sér alllangan aðdraganda eins og fram hefur komið, í raun og veru hófst þessi vinna árið 2007. Síðan hefur málið þróast eins og gengur og nú erum við stödd með þetta nýja frumvarp hér í höndunum, heildarlöggjöf um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.

Það viðfangsefni sem frumvarpið tekur á er að mínu mati einhver mesta áskorun sem við stöndum frammi fyrir. Til hvers er ég að vísa? Jú, ég er að vísa til þeirrar tölulegu staðreyndar að menn telja að þeim sem eiga að njóta þess sem í frumvarpinu segir, sem komnir eru á lífeyrisaldur, muni fjölga frá því að vera um 35.000 árið 2012 í 63.000 eftir 18 ár árið 2030 og 78.000 árið 2040. Þetta er viðfangsefnið sem við stöndum frammi fyrir. Kostnaðurinn við að tryggja framfærslu fyrir það fólk sem fer á lífeyrisaldur á næstu árum mun fara stigvaxandi. Annars vegar er þetta mikil áskorun fyrir ríkisvaldið og almannatryggingalöggjöfina og hins vegar ekki síður fyrir lífeyriskerfið okkar. Það er mjög nauðsynlegt að setja þessa tvo hluti í samhengi.

Frá árinu 1969 höfum við byggt upp lífeyrissjóðakerfið. Það gekk mjög illa framan af, fyrir daga verðtryggingarinnar sem allir bölva nú gátu lífeyrissjóðirnir ekki ávaxtað þá fjármuni sem fólk lagði inn í sjóðina og lífeyrissjóðirnir hafa bent á að það áfall sem þeir urðu fyrir við efnahagshrunið 2008 er hreinn barnaleikur miðað við þau efnahagslegu áföll sem lífeyriskerfið varð fyrir á árunum fyrir setningu laganna um verðtryggingu, sem kennd eru við Ólaf Jóhannesson, formann Framsóknarflokksins.

Mjög mikilvægt er fyrir okkur að átta okkur á þessu, vegna þess að við höfum í raun og veru verið að byggja upp lífeyrissjóðakerfið okkar á tiltölulega skömmum tíma. Það hefur eflst mjög mikið. Hrein eign til greiðslu lífeyris í lífeyriskerfinu núna er eitthvað um 2.500 milljarðar kr. Menn þurfa að hafa sig alla við með ávöxtun á þessu fjármagni til þess að geta í raun og veru mætt þeim skuldbindingum sem lífeyrissjóðakerfið tekur á sig þegar menn greiða inn í lífeyrissjóðina.

Eins og málin standa og eins og þróunin verður fyrirsjáanleg á næstu árum er alveg óhjákvæmilegt að lífeyrisaldur á Íslandi verði hækkaður, bara til þess að bregðast við lýðfræðilegum breytingum, hækkandi meðalaldri og hærri lífaldri. Lífeyrisaldur verður á næstu 20 árum að hækka um þrjú ár, úr 67 í 70 ára aldur. Það er staðreynd sem hefur allt of lítið farið fyrir í hinni almennu umræðu. Þá erum við ekki að tala um forsendur eins og þær að illa geti gengið að ávaxta fjármuni lífeyrissjóðanna þannig að þeir standi undir skuldbindingum sínum. Við erum eingöngu að ræða um þetta út frá þeirri forsendu að fólki á efri árum muni fjölga, sem betur fer, það er auðvitað ánægjulegt. Árangur felst í því að meðalaldur okkar hækki og okkur takist að búa öldruðum gott ævikvöld. Það viljum við auðvitað öll, um það er enginn pólitískur ágreiningur.

Þetta er stóra verkefnið sem við stöndum núna frammi fyrir. Ef við setjum það í frekara tölulegt samhengi þá fer framfærsluhlutfall 67 ára og eldri, þ.e. að hversu miklu leyti ellilífeyrisþegar verði háðir öðrum um framfærslu, annaðhvort lífeyrissjóðum eða almannatryggingakerfinu, sem er núna um 18%, í 29% árið 2030, 34% 2040 og 42% árið 2061. Þó að menn þurfi ekki að leggja þær allar á minnið þá sýna þessar tölur okkur þróunina, öldruðum mun fjölga. Það eru ánægjuleg tíðindi í sjálfu sér, en í því felst sú mikla áskorun um það hvernig við ætlum að tryggja öldruðum mannsæmandi framfærslu á næstu árum með þessum tveimur stoðum sem við höfum byggt upp, annars vegar lífeyriskerfinu og hins vegar almannatryggingakerfinu.

Ákaflega mikilvægt er að hafa eitt í huga í þessu sambandi. Þó að lífeyriskerfið hafi verið að byggjast upp á tiltölulega fáum árum hefur samt sem áður náðst sá árangur að það munu berast meiri og eru núna að berast meiri greiðslur til fólks á ellilífeyrisaldri út úr lífeyrissjóðunum heldur en almannatryggingakerfinu. Það er auðvitað gríðarlegur árangur. Það er að mínu mati mjög mikilvæg og góð þróun. Þarna erum við með okkar sparnaði að leggja til hliðar til efri áranna, með þessum hætti getum við mögulega létt undir í róðrinum varðandi almannatryggingakerfið að öðru leyti.

Óskaplega mikilvægt er að menn hafi samspilið við lífeyrissjóðina í huga. Það skiptir líka mjög miklu máli þegar við erum að byggja upp almannatryggingakerfi okkar að við höfum nákvæmlega þetta samspil í huga.

Á síðustu árum höfum við verið að eyðileggja þetta samspil. Svo mikil inngrip hafa verið af hálfu ríkisvaldsins með miklum tekjutengingum og tekjuskerðingum í almannatryggingakerfinu að í raun og veru hefur fólk ekki verið að njóta þeirra inngreiðslna sem það hefur sett inn í lífeyrissjóðina.

Ég hitti á dögunum sjómann sem er að verða 67 ára gamall. Hann lét reikna út fyrir sig mögulegar greiðslur úr lífeyrissjóðnum og samspilið við almannatryggingakerfið. Hann sagði: Ég sé ekki betur en svo að ef þetta gengur eftir svona hefði ég verið jafn vel settur þó ég hefði aldrei borgað í lífeyrissjóð, þó ég hefði notað þá peninga til að byggja mér stærra og fínna hús, til þess að eiga aðeins betri bíla, til að fara aðeins oftar til útlanda, njóta lífsins eins og það er stundum kallað, en ég kaus hins vegar að leggja í lífeyrissjóð og það var auðvitað líka mín lögbundna skylda. Mér finnst núna að þjóðfélagið sé að gefa mér langt nef með því að vera búið að byggja upp þessi samspil skerðingarinnar með þeim hætti að ég njóti þess ekki í auknum lífeyri að ég skyldi hegða mér með þessum hætti.

Þetta finnst mér vera vond skilaboð, ekki bara til þeirra sem nú eru að komast á lífeyrisaldur eða þeirra sem eru á lífeyrisaldri, heldur líka til komandi kynslóða. Við erum að senda þau skilaboð að fólk sé jafn vel sett hvort sem það borgar í lífeyrissjóðina eða ekki.

Frumvarpið sem hér liggur fyrir hefur meðal annars þann tilgang að reyna að bregðast við þessu, að afnema þessar skerðingar með einhverjum hætti. Þegar við skoðum grunnlífeyrinn í gegnum framfærslulífeyrinn á sér stað skerðing sem er króna á móti krónu, eins og hæstv. velferðarráðherra kom að í máli sínu áðan. Fyrir hverja krónu sem menn fá úr lífeyrissjóðunum er framfærsluuppbótin skert um sömu upphæð. Það er þessi vítahringur sem við verðum að rjúfa. Ég er út af fyrir sig sammála því prinsippi sem hér er verið að reyna að innleiða, að draga úr skerðingunum. Ætlunin er að í fyrsta áfanga verði skerðing framfærsluuppbótarinnar vegna tekna lækkuð úr 100% í 80%, síðan verið skerðingarhlutfallið lækkað í áföngum þangað til 45% markinu er náð, þá standi eftir einn bótaflokkur sem menn kalla ellilífeyri.

Ef við gætum allrar sanngirni getum við sagt að í frumvarpinu sé verið að reyna að feta slóð út úr þessum vítahring. Það er líka satt sem sagt hefur verið að vissulega er þetta einföldun frá því kerfi sem við höfum í dag, en þó ekki meiri einföldun er svo að við værum stödd í nokkuð áþekkum sporum, ekki sömu svo ég sé nú alveg sanngjarn, og við vorum fyrir árið 2008 þegar allt þetta skuespil með greiðslur til aldraðra hófst í raun og veru fyrir alvöru.

Stóra spurningin sem hér hefur auðvitað verið rædd er þessi: Hvernig erum við í raun og veru að taka á þessu máli? Við getum sagt sem svo að grunnhugsunin horfi til réttrar áttar. Við erum að reyna að draga úr skerðingunum. Við erum að reyna að efla vitund manna um mikilvægi þess að leggja fjármuni til hliðar til efri áranna í gegnum lífeyrissjóðina. Við erum að reyna að bæta kjör þeirra eldri sem við fáum vonandi öll að njóta að lokum, við komumst vonandi sem flest á þann aldur að við getum notið efri áranna tiltölulega áhyggjulaus. Það er verkefni okkar.

Það er áhyggjuefni að við sjáum ekki að í raun og veru sé búið að hugsa málið til enda þegar við skoðum frumvarpið. Þar á ég við fjárhagsþáttinn. Við erum annars vegar búin að búa til þennan ramma, en hins vegar höfum við ekki tekið neina ákvörðun um með hvaða hætti við ætlum að fylla upp í hann.

Ef við skoðum t.d. mat fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins þá áætla þeir að útgjaldaaukningin vegna þessa nýja lífeyriskerfis muni nema 25 milljörðum kr., sem eru 80% af áætluðum útgjöldum til þessa málaflokks í fyrra. Þá er ég að tala um þegar þetta mál verður komið að fullu til framkvæmda sem þó verður ekki fyrr en árið 2040. Áætlað er að í núverandi kerfi nemi aukningin um 7 milljörðum kr., en 25 milljörðum með nýja kerfinu sem ætlunin er að innleiða. Þarna er í raun og veru verið að skila auðu. Því er ekki svarað með hvaða hætti við munum geta tekist á við þetta.

Ég hef heyrt að hæstv. velferðarráðherra hafi sagt að fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins ofmeti kostnaðinn vegna þess að í gildandi lögum sé kveðið á um tilteknar skerðingar sem séu tímabundnar og eigi að falla úr gildi á næsta og þarnæsta ári. Það er mikið rétt. Í fyrsta lagi breytir það hins vegar ekki heildarmyndinni. Í öðru lagi höfum við ekkert fast í hendi í þessum efnum, þó við ætlum auðvitað að komandi stjórnvöld muni ekki halda áfram á þessari skerðingarbraut sem fylgt hefur verið síðustu árin.

Við erum að ræða frumvarpið á síðustu dögum þessa kjörtímabils. Við vitum hvað hefur gengið á á síðustu árum. Við höfum öll skilning á því að allir urðu fyrir höggi, þar með talið ellilífeyrisþegar. Það sem er ósanngjarnt í því er hins vegar, og það er ómótmælanlegt, að ljóst er að skerðingin hefur orðið hlutfallslega meiri hjá ellilífeyrisþegum en hjá mjög mörgum öðrum hópum samfélagsins. Því getum við þakkað fyrir að þetta skuli eingöngu vera hugsað sem tímabundin aðgerð. Ekki er gert ráð fyrir því í þeim lögum sem gilda í dag að skerðingin sem gerð var á árunum 2009–2012 gangi neitt til baka, heldur er eingöngu ætlunin að hverfa frá skerðingunum fram í tímann.

Jafnvel þó við tökum tillit til þess og jafnvel þó við metum það til frádráttar á kostnaðinum að þessi löggjöf sé tímabundin breytir það ekki heildarmyndinni sem við erum að tala hérna um.

Þá kemur að því vandasama. Ef við ætlum að standa við það sem löggjöfin gefur fyrirheit um er alveg deginum ljósara að við verðum að forgangsraða upp á nýtt. Við verðum að hverfa frá einhverjum þeirra verkefna sem við ætluðum okkur að fara í. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson nefndi allmörg dæmi um það sem við hljótum að reyna að standa á bremsunum með.

Hitt sem er svo mikilvægur þáttur þessa máls er að þegar við ræðum um kostnaðinn getum við ekki bara rætt um kostnaðinn vegna tryggingagreiðslnanna, jafnmikilvægar og þær eru, því öldrunarkostnaðurinn er ekki bara lífeyrisgreiðslurnar, hann eru líka kostnaðurinn við heilbrigðiskerfið sem mun vaxa vegna þessara lýðfræðilegu breytinga. Það verður vaxandi kostnaður vegna heimahjúkrunar og dvalar- og hjúkrunarheimila.

Þeim spurningum er öllum ósvarað. Ætlum við að draga samsvarandi úr þessum kostnaðarliðum? Það munum við ekki gera og það munum við ekki geta gert.

Við erum því miður með þetta frumvarp núna á lokadögum og öllum er ljóst að það verður ekki afgreitt. Þetta er eingöngu almenn yfirlýsing. Það á algjörlega eftir að sjá fyrir (Forseti hringir.) fjármagni í það hvernig eigi að standa undir þessu og það á eftir að svara þessum stóru spurningum sem ég hef varpað upp í þessari umræðu.