141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[14:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég ætla að ræða hér áfram um frumvarp til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning. Mér finnst ótækt að ræða þetta mál án þess að líta til umhverfis almannatrygginga. Þetta er ekki eyland. Almannatryggingar starfa í umhverfi þar sem er fjöldi lífeyrissjóða og fólk með tekjur af ýmsum ástæðum. Það snertir einmitt þetta frumvarp.

Meginstoð félagslega kerfisins okkar er fjöldi lífeyrissjóða sem starfar samkvæmt lögum. Fólk greiðir núna yfirleitt 12% í þá sjóði, í sumum sjóðum þarf að hækka það umtalsvert, en í þá borgar fólk hlutfall af launum sínum og fær lífeyri sem hlutfall af launum. Til að halda þessu alveg á hreinu á maður sem borgar af tvöfalt hærri launum í lífeyrissjóð rétt á tvöfalt hærri lífeyri. Það er alveg á tæru.

Lífeyrissjóðirnir eru mjög misgamlir, en fyrsti eiginlegi lífeyrissjóðurinn er stofnaður um 1920, Lífeyrissjóður verslunarmanna er frá 1956. Meginuppistaða lífeyrissjóðanna eru þó lög um skylduaðild manna að lífeyrissjóðum sem sett voru 1974. Þá streymdi fólk í lífeyrissjóðina og fór að borga iðgjöld og lífeyrissjóðirnir fóru að borga miðað við tekjur.

Fyrstu árin gekk það mjög illa vegna þess að það var engin verðtrygging í landinu og lífeyrissjóðirnir voru í rauninni allir gjaldþrota frá stofnun af því þeir gátu ekki náð verðtryggingu á iðgjöldin og gátu þar af leiðandi ekki borgað verðtryggðan lífeyri. Þeir borguðu því mjög lítið. Eftir að verðtryggingin var tekin upp hefur lífeyrissjóðunum vaxið fiskur um hrygg. Nú borga þeir umtalsvert meira en Tryggingastofnun, eitthvað um 70 milljarða á móti 50, 60 milljörðum sem Tryggingastofnun greiðir.

Ég tel að verkefni okkar núna sé að búa til skilvirkt bótakerfi. Eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni tryggjum við mjög víða í kerfinu fjölskyldur og heimili, þ.e. húsnæðið, með vaxtabótum, húsaleigubótum o.s.frv. Ég nefndi líka að við erum með barnalífeyri út og suður. Mér finnst að þetta þurfi allt að sameina í einn bótaflokk sem heiti heimilisbætur og þar sé tekið mið af fjölda í heimili og greiddar bætur miðað við hversu margir eru í heimili. Þá erum við búin að dekka börnin og dekkum það líka þegar menn búa einir. Þá þarf ekki lengur heimilisuppbót hjá Tryggingastofnun. Og þá fer nú að verða gaman, herra forseti, því þá fer lífeyririnn að verða virkilega einfaldur. Við þurfum heldur ekki uppbót vegna lágrar framfærslu því að það er þá dekkað hjá heimilinu í heimilistryggingum. Eftir það eru almannatryggingar bara með einn lífeyri og þá getum við farið að tala um einföldun. En til þess þarf að skera upp allt heila velferðarkerfið og er ekki vanþörf á. Það hefur aldrei verið litið á það heildstætt.

Nokkuð hefur verið rætt um skerðingu greiðslna til lífeyrisþega. Það er rétt að lífeyrisþegar hafa ekki hækkað almennt, en þeir fengu framfærsluuppbótina 2008. Þá hækkuðu þeir sem voru verst settir, þeir hækkuðu um 20%. Þeir hafa haldið þeirri hækkun með skelfilegum afleiðingum fyrir þá sem höfðu borgað í lífeyrissjóð.

Það kerfi sem við horfum upp á hér í þessu frumvarpi er að framfærsluuppbótin er tekin inn í allt heila kerfið og eftir fjögur, fimm ár verða allir búnir að fá þessa framfærsluuppbót, þ.e. 20% hækkun. Það kemur á móti þeirri skerðingu sem þeir sem eru fyrir ofan þessi mörk hafa sætt frá því núverandi ríkisstjórn tók við, vegna bágrar stöðu ríkissjóðs. Þetta er mjög flókið samspil, margir hafa hækkað mikið og aðrir munu hækka umtalsvert. Það getur vel verið að samanlagt gefi þetta sæmilega hækkun.

Við þurfum í framtíðinni að horfa til þess sem ég nefndi í fyrri ræðu minni, vaxandi fjölda ellilífeyrisþega. Við þurfum að hækka elliífeyrisaldurinn umtalsvert, úr 67 ára í 75, eða jafnvel 85, og gera fólki auðveldara að hætta en er í dag. Þetta er eitthvað sem við verðum að gera til að mæta mikilli fjölgun ellilífeyrisþega.