141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[15:02]
Horfa

Jón Bjarnason (U) (andsvar):

Herra forseti. Ástæðan fyrir að ég kem í stutt andsvar við hv. þm. Pétur H. Blöndal er kannski hugtakanotkunin í þessu frumvarpi. Ég veit að hv. þingmaður er með mikla þekkingu á því sviði sem hér er verið að fjalla um. Þessi hugtakanotkun „bætur“ og „bótaþegar“ og sú skírskotun sem sú hugtakanotkun hefur. Ég lít svo á að ekki eigi að kalla þá sem eru á örorku eða vegna aldurs eða af einhverri ástæðu, kannski vegna atvinnumissis, bótaþega. Þetta eru samfélagslaun og samfélagslegar skyldur og samfélagsleg réttindi sem við höfum öll. Þess vegna finnst mér hugtakanotkunin skipta miklu máli í þessu sambandi og í sjálfsögðum aðgerðum, eins og hér er verið að fjalla um og við vitum að eru gríðarlega mikilvæg og mikið réttlætismál.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér í því að það eigi að finna önnur orð og aðra hugtakanálgun og aðra hugmyndafræðilega nálgun en orðin bætur, bótaþegar o.s.frv. Ég minni á „samfélagsleg laun“ sem mig minnir að Öryrkjabandalag Íslands hafi einmitt notað sem hugtak og hugmyndafræðilega nálgun í þessum efnum.