141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[15:52]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning. Það er mikið að vöxtum og í fyrri ræðu minni fór ég aðeins yfir samhengi þess við önnur frumvörp sem komið hafa frá ríkisstjórninni á síðustu vikum og tengsl þeirra við fjárlagagerð, fjárlög íslenska ríkisins og áætlun um stefnu í ríkisfjármálum. Ég hef kallað þessi frumvörp sem eru að koma fram óskalög, það er sem sagt óskað eftir staðfestingu Alþingis á því að þessir óskadraumar núverandi ríkisstjórnarflokka verði gerðir að lögum. Því miður er ekki fjárhagsleg innstæða fyrir þessum hugmyndum eins og þær eru settar fram.

Ég vil þó í þessari seinni ræðu minni um þetta mál enn og aftur nefna að í umsögn fjárlagaskrifstofunnar með frumvarpinu kemur fram að engin umfjöllun hafi orðið um þessar tillögur og samhengi þeirra við fjármál hins opinbera, ekki heldur í tengslum við langtímaspár um þróun öldrunarkostnaðar og alls ekki um fjármögnunina. Það er ástæða til að nefna þetta sérstaklega því að mikil umræða er tengd lífeyriskerfi landsmanna í tengslum við breytingar á lögum um almannatryggingar. Gert hefur verið ráð fyrir því að lífeyrissjóðirnir muni taka við sem meginstoð fjármögnunar lífeyris og að útgjöldin, hin stoðin, til almannatrygginga vegna ellilífeyrisþega lækki hjá ríkissjóði á næstu árum.

Það er hins vegar mat fjárlagaskrifstofunnar að frumvarpið dragi mjög úr svigrúmi ríkissjóðs til að annast aðra þætti öldrunarkostnaðar í framtíðinni. Telur ráðuneytið einsýnt að greiðslur ríkissjóðs til þessara mála muni aukast verulega með hækkandi meðalaldri og tiltölulega færri einstaklingum á vinnumarkaði til að standa undir velferðarkerfinu. Að mínu mati er hins vegar bráðnauðsynlegt að hverfa af braut gegndarlauss niðurskurðar sem verið hefur á undanförnum þremur árum, sérstaklega í heilbrigðisþjónustunni.

Við verðum að hafa í huga að heilbrigðisstarfsfólkið er hin raunverulegu verðmæti í því kerfi og nauðsynlegt er að leggja áherslu á breytta forgangsröðun í fjárveitingum til þessa málaflokks. Því miður hefur ekki háttað svo til. Ég gat um það í fyrri ræðu minni að ýmsum svokölluðum gæluverkefnum, sem ríkisstjórnin hefur kallað eftir staðfestingu á, væri hægur vandi að forgangsraða öðruvísi en gert hefur verið. Ég vil þó nefna, sérstaklega vegna umræðunnar um lífeyrissjóðina, að við höfum byggt upp eitt sterkasta lífeyrissparnaðarkerfi sem þekkist og lífeyrissjóðirnir tryggja þeim sem þess þurfa, þeim sem falla út af vinnumarkaði af ýmsum ástæðum, lífeyri tengdan tekjum og það er mjög mikilvægt að því kerfi sé viðhaldið og það varið fyrir áföllum.

Tryggingastofnunin er svo hin stoðin og þá þurfum við að leita leiða til að styrkja hana. Ég ítreka að ég tel nauðsynlegt að endurskoða bætur almannatrygginga í heild út frá þeirri grunnforsendu að um leið og öllum séu tryggðar lágmarkstekjur til lífsviðurværis verði að gæta þess að ekki sé dregið úr hvatanum til sjálfsbjargar og ekki heldur dregið úr hvata og möguleikum aldraðra og öryrkja til að bæta kjör sín. Þeir eiga að halda fjárhagslegu sjálfstæði sínu og við eigum að kappkosta að gera þeim kleift að halda virðingu sinni.

Frumskylda okkar í þessum efnum er að draga fyrst af öllu til baka þá kjaraskerðingu sem eldri borgarar og öryrkjar urðu fyrir 1. júlí 2009 undir forræði núverandi ríkisstjórnar og sömuleiðis mætti varpa hér upp þáttum sem ósanngjarnir eru, svo sem verðbótaþætti vaxta, að hann valdi ekki skerðingum á bótum frá Tryggingastofnun. Að úrbótum í þessu verður að vinna í samstarfi við lífeyrissjóðakerfið og aðila vinnumarkaðarins, m.a. til þess að leita leiða til að gera öldruðum kleift að vera lengur úti á vinnumarkaði og auka þar með lífsgæði sín.