141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[17:06]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur kærlega fyrir ræðuna. Það eru nokkur atriði sem ég stoppaði við í máli þingmannsins sem ég mundi vilja spyrja hana aðeins betur út í. Á þeim tíma sem hv. þingmaður var aðstoðarmaður fjármálaráðherra — (Gripið fram í.) já, fyrirgefðu, á því tímabili sem Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn voru í ríkisstjórn 2007 og 2008, telur þingmaðurinn að það hafi verið rétt ákvörðun að fara í þær viðamiklu breytingar sem þá var farið í á lífeyriskerfinu? Er það rétt skilið hjá mér að hv. þingmaður telji að gerð hafi verið alvarleg mistök í skipan starfshópsins sem skilaði af sér tillögum til velferðarráðherra í október 2012 og það snúi þá fyrst og fremst að því að fjármálaráðherra hafi ekki skipað fulltrúa inn í þennan hóp? Telur hv. þingmaður eðlilegt ferli við vinnu á svona viðamiklu og stóru máli að starfshópurinn skilaði af sér tillögu í október 2012 en hins vegar lá ekki fyrir skýrsla um kostnaðaráhrif þessara tillagna til lengri tíma fyrr en í nóvember 2012? Hópurinn var sem sagt búinn að skila af sér áður en kostnaðarmat lá fyrir. Getur verið að þessi vinnubrögð séu ástæðan fyrir því að hér liggur fyrir óvanalega, að mínu mati, harðorð umsögn frá fjárlagaskrifstofunni um áhrif þessa frumvarps á útgjöld ríkissjóðs?