141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[17:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er eðlilegt þegar við ræðum lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning, þegar lagðar eru fram tillögur sem að mörgu leyti eru ágætar um að einfalda það kerfi sem við höfum í dag, að horfa aðeins til framtíðar og velta því fyrir sér hvernig staða þess fólks sem mun taka lífeyri eftir 20 ár verður ef stefna núverandi ríkisstjórnarflokka yrði áfram við lýði í samfélaginu. Ef ekki er horft til vanda heimilanna, ef ekki er horft til þess að byggja upp atvinnulífið með ábyrgum og áhrifaríkum hætti hljótum við öll að gera okkur grein fyrir því að þá verður ekki hægt að fjármagna það kerfi sem hér er lagt til.

Þá blasir önnur staðreynd við. Sú eign sem einhverjir eiga í húsnæði sínu í dag, þeir sem eru í kringum 45 til 50 ára — þegar þeir taka sinn lífeyri verður sá lífeyrir sem þeir eiga í húsnæði væntanlega brunninn upp, frú forseti, vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki sýnt nokkurn einasta lit í að fara í einhver alvörumál til að taka á þeim vanda sem heimilin eru í.

Það er óábyrgt að koma fram með málið að því leytinu til að sýna ekki fram á hvar mæta eigi tekjunum. Við getum verið sammála um að nauðsynlegt sé að leiðrétta kerfið, einfalda það, og það sé líka réttlátt að bæta í lífeyrisgreiðslur til ellilífeyrisþega. En við verðum þá að horfa á heildarmyndina. Ég sakna þess að ríkisstjórnarflokkarnir hafi ekki gert það eða reynt að rökstyðja það með einhverjum hætti hér í þessum stóli.

Það er vitanlega forsenda þess að við getum gert betur við þá sem hafa skilað samfélaginu miklu í gegnum árin, þá sem eru að fara að taka lífeyri, að skapa atvinnulífinu almennilegt umhverfi, skapandi umhverfi, þar sem meiri tekjur og hærri eru greiddar í ríkissjóð í formi skatta til að hægt sé að standa undir velferðarkerfinu. Við sjáum líka og vitum, eins og ég sagði áðan, að margir sem hafa fjárfest í fasteignum lögðu töluvert af eigin fé í þær fasteignir, horfðu á það sem sinn lífeyri jafnvel til að mæta þeim lífeyri sem þeir mundu taka síðar á ævinni — vegna aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar er mikið af því fé horfið í dag.

Einn af kostum þessa frumvarps er það sem fram kemur á bls. 85 sem dæmi, í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins varðandi sameiningu bótaflokka, þar sem reynt er að einfalda þetta kerfi allt saman. Það er rétt sem kemur fram hér annars staðar, ég er búinn að týna blaðsíðutalinu, að það er eiginlega ekki nema fyrir sérfræðinga að skilja hvernig kerfið virkar í dag, svo miklir angar og skúmaskot eru í því. Ég vil stoppa við eina setningu sem ég hef ekki enn fundið svar við í frumvarpinu. Það er sjálfsagt bara yfirsjón og vonandi kemur skýring hjá einhverjum stjórnarliða sem tekur þátt í þessari umræðu. Hér er talað um að verið sé að lækka greiðslur til einstaklinga en hækka til þeirra sem eru í sambúð og ég sakna þess að hafa ekki séð eða heyrt, ég veit að rökstuðningurinn er hér, nánari rökstuðning frá þeim sem mæla fyrir þessu frumvarpi.

Frú forseti. Ég get ekki sleppt því að vekja athygli á því að á bls. 36 er vitnað í úttekt þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands. Ég velti fyrir mér hvort eðlilegt sé að vitna í þá stofnun í þessu tilviki. Ég ætla bara að leyfa mér að segja það. Ég veit ekki betur en að sú stofnun hafi nú eða í það minnsta — ég man ekki hvort forstöðumaðurinn hefur verið í stjórn Tryggingastofnunar eða í verkefnum fyrir ríkisstjórnina, sem er að veita þetta álit, (Forseti hringir.) ég veit það ekki, en ég leyfi mér að efast um að rétt sé að taka mið af því.