141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[17:42]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Verkefnastjórn sú sem skipuð var 1. október 2007, sem falið var að endurskoða almannatryggingakerfið, lagði fram tillögur í lok nóvember 2007 um breytingar. Þær breytingar voru mjög mikilvægar vegna þess að vissulega var orðið þarft að endurskoða kerfið, en þar birtist líka sú hugsun að nauðsynlegt væri að gefa fólki tækifæri til að reyna að afla sér tekna án þess að lenda í því að verða skorið samstundis niður hvað varðaði greiðslu úr almannatryggingakerfinu.

Afnám skerðinga vegna tekna maka, sem var mikið réttlætismál, og frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega voru atriði sem skiptu verulega miklu máli að kæmu hér inn í kerfið. Það er eitt af því sem ég tel að við þurfum að horfa mjög vel til í framtíðinni, þ.e. að hafa hvatana rétta þannig að þeir sem hafa heilsu til að halda áfram að vinna geti verið áfram á vinnumarkaðnum án þess að hver króna sem þar vinnst inn skerði um of þær bætur sem menn eiga rétt á, fjárframlög úr almannatryggingakerfinu eða lífeyrissjóðskerfinu, hvort heldur sem er. Einkum á þetta við varðandi lífeyrissjóðina.

Verkefnið sem við okkur blasir er að fjármagna og eiga fyrir því að tryggja að þeir sem hafa lokið starfsdegi sínum geti lifað fjárhagslega öruggu lífi. Það verður kannski seint þannig að allir verði fullkomlega sælir með sína stöðu, en okkur hefur þó, guði sé lof, miðað í rétta átt á undanförnum áratugum þannig að við höfum getað gert betur og betur. Vandinn er sá að þeim mun fjölga sem munu þurfa á aðstoð að halda sökum aldurs. Þrýstingurinn á almannatryggingakerfið mun aukast, vegna þess að ellilífeyrisþegum mun fjölga og það mun þýða að við þurfum að setja aukna fjármuni til þessa. Ég held að góð sátt sé um það að það er sú leið sem við munum fara. Ég held að góð sátt sé um það og almennur skilningur í samfélaginu að aldraðir eru ekki ofhaldnir af kjörum sínum og að við þurfum að gera betur í þeim málaflokki. Þær skerðingar sem núverandi ríkisstjórn stóð fyrir verða að ganga til baka og geta ekki staðið eins og þær hafa gert allt of lengi.

Þess vegna er það svo, virðulegi forseti, að það er ekkert sem leysir þetta vandamál nema umtalsvert hár hagvöxtur og aukin framleiðni í efnahagslífinu. Alveg sama hvernig menn snúa þessu máli fyrir sér. Alveg sama hverjar óskirnar eru. Alveg sama hvað það er sem menn vilja ná fram í þessum málaflokki, þá eru hinar hörðu staðreyndir málsins þessar: Öldruðum fer hratt fjölgandi. Þeim mun fækka sem verða á vinnumarkaði sem þurfa að standa undir greiðslunum. Það mun gerast þannig og undan því verður ekki vikist að það mun verða erfiðara og erfiðara ef okkur tekst ekki að standa undir þessum útgjöldum, ef okkur tekst ekki að auka hér hagvöxtinn og framleiðnina. Það er grundvallar- og lykilatriði.

Vandinn með þá ríkisstjórn sem nú fer brátt frá völdum — og ég vona að hún komi aldrei aftur — er sá að það vantaði allan skilning á því að til að standa undir því sem við þurfum og verðum að gera dugar ekki að hafa þann hagvöxt sem hér hefur verið á undanförnum missirum og árum, það bara dugar (Forseti hringir.) ekki. Svo einfalt er málið, virðulegi forseti. Því verðum við að breyta.