141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[18:23]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann kom inn á það í ræðu sinni að sennilega væru það ellilífeyrisþegar og öryrkjar sem mest hefðu fundið fyrir samdrætti eða skerðingu af hálfu þessarar hæstv. ríkisstjórnar. Við munum að 1. júlí árið 2009 var lagður fram bandormur um skerðingarnar en þá átti að skerða um 7 milljarða á ári. Við fjárlagagerðina árið 2010 bentu fulltrúar ellilífeyrisþega og öryrkja á að þær skerðingar sem ráð var fyrir gert yrðu miklu harkalegri en um var talað, enda kom það berlega í ljós við fjáraukalagagerð ársins 2010, eftir fyrsta heila árið með þessu fyrirkomulagi, að þá skeikaði þar milljörðum, skerðingin var mun meiri en lagt var upp með.

Ég er sammála hv. þingmanni um að málið kemur seint fram. Engir hugsandi menn hafa væntingar til þess að málið verði klárað, þetta er bara stefnuyfirlýsing fyrir kosningarnar þó að það sé ágætt að málið komi fram.

Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að það þyrfti að vera hér ákveðin atvinnusköpun til að standa undir velferðarkerfinu. Hvort sem það varðar þetta mál eða heilbrigðiskerfið þá verður að vera hér atvinnusköpun, þar þarf algjöra kúvendingu.

Síðan vil ég spyrja hv. þingmann, vegna stöðu ríkissjóðs, hvort hann geti verið sammála mér um að forgangsraða þurfi upp á nýtt og hætta eigi við mörg gæluverkefni hæstv. ríkisstjórnar og áform um að fara í alls konar óþarfa uppbyggingu á sumum hlutum en nota þess í stað það svigrúm sem við höfum í ríkisfjármálunum fyrir almannatryggingar, heilbrigðisþjónustu o.s.frv.