141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

slysatryggingar almannatrygginga.

635. mál
[19:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar ágætu skýringar. Ég velti líka fyrir mér af hverju það er orðið erfiðara í dag að meta þessa hluti, ef það er skýringin sem þeir sem leggja frumvarpið fram hafa í huga. Er erfiðara í dag að meta slíkt en áður? Einhvern veginn hefði maður haldið að það væri jafnvel auðveldara í dag eftir því sem tækninni fleygir fram og þekkingunni. Ég velti því fyrir mér, og það væri ágætt ef hv. þingmaður gæti skýrt það aðeins, þótt einhver skýring komi kannski fram á því hér, hvar þeir aðilar eru staddir sem fá ekki þetta mat eftir fimm ár eða eru undanskildir frá því kerfi sem við ræðum hér.

Það er ýmislegt annað í þessu sem vert væri að ræða og kem ég kannski örlítið inn á það í ræðu minni á eftir, og ég hefði kannski átt að spyrja ráðherrann frekar um en missti nú af því tækifæri. En ég hnaut um þetta atriði vegna þess að það virðist vera býsna afdráttarlaust kveðið á um það sem tekur við eftir þessi fimm ár.