141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[20:39]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Margt vekur athygli við þau tvö frumvörp sem hér er fjallað um, ekki síst það að flutt er frumvarp um ívilnun til fyrirtækis meðan í gildi eru lög, sem eru að verða þriggja ára gömul, nr. 99/2010, sem einmitt fjalla um ívilnanir til fyrirtækja af þessu tagi.

Forseti. Er ekki ráð að ráðherrann svari því — mér heyrðist hann ekki gera það í framsöguræðu sinni — af hverju grípa þarf til þessara ráða með þetta eina fyrirtæki? Gat það ekki sætt sig við að hlíta hinum almennu lögum á Íslandi um þetta sem sett voru með töluverðum lúðrablæstri árið 2010? Eru þau lög ef til vill ekki nógu góð?

Þá spyr maður að sjálfsögðu: Ef þau voru ekki nógu góð, koma þá ekki þau sex fyrirtæki sem hefur verið samið við samkvæmt þeim lögum, þar af þrjú virk, (Forseti hringir.) og reyna að fá samninga á borð við þessa? Hvað ætlar hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra að gera þá?