141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[20:42]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég hlýt að spyrja aftur vegna þess að þetta var ekki nægilega gott svar: Hvers vegna reyndi ráðherrann þá ekki að láta breyta ívilnanalögunum á þann hátt að þau fælu í sér það sem hann nú nefnir?

Ég hef athugað þær breytingar sem nú er verið að flytja. Breytingafrumvarpið er á dagskrá þessa fundar, þ.e. tvö ívilnanafrumvörp eru á dagskrá þessa fundar, og það er munur á þeim í verulegum atriðum. Það getur vel verið að þau séu ekki nema tvö en þau eru mikils verð. Það er töluverð lækkun á tekjuskatti fyrirtækisins frá því sem í breytingunum er gert ráð fyrir og það er algjör niðurfelling á hinu almenna tryggingagjaldi sem ég ætla að fjalla aðeins um á eftir.

Ég spyr þá aftur og bið forseta að fyrirgefa mér að vera svona leiðinlegur: Ef þetta er svona sérstakt mál fyrir þau svæði sem hæstv. ráðherra nefndi, hvers vegna er það þá ekki skrifað í ívilnanalögin? Hvers vegna erum við með lög (Forseti hringir.) sem sniðgengin eru með öðrum lögum á meðan verið er að breyta lögunum á sama þingfundi? Þetta er hvorki (Forseti hringir.) göfug lagasetning né göfug stjórnsýsla.