141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[21:21]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Hér eiga sér stað merkileg tímamót á kjörtímabilinu. Eftir að þessi ríkisstjórn hefur fátt aðhafst í uppbyggingu atvinnumála í landinu, eins og dæmin sanna og ég fer aðeins yfir, þá lítur hér dagsins ljós frumvarp til að greiða fyrir framkvæmdum við stóriðju, orkufrekar framkvæmdir á Bakka við Húsavík og því ber að fagna. En auðvitað er þetta kjörtímabil sorgarsaga þegar kemur að þessari hlið mála og vissulega gæti þjóðarbúið staðið undir velferðarkerfi og menntakerfi, löggæslu og öðru, svo dæmi séu tekin, með miklu öflugri hætti en raun ber vitni ef farnar hefðu verið aðrar leiðir. Það síðasta sem við sáum til þessarar ríkisstjórnar á þeim vettvangi, þ.e. þar sem hún dró úr áherslum á þennan þátt, var við samþykkt rammaáætlunar fyrr á þessu ári þar sem í raun var lokað fyrir allar frekari virkjunarframkvæmdir í landinu á næstu fjórum til fimm árum nema þær sem komnar eru af stað. Enginn virkjunarkostur var settur í nýtingarflokk sem er í undirbúningi og er kominn nægilega langt heldur er þar eingöngu um að ræða virkjunarkosti sem eiga eftir að fara í gegnum langar og viðamiklar undirbúningsframkvæmdir.

Ef við horfum á framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar sem kynnt var á vordögum 2011 og lítum á hvar við gætum verið ef þeirri framkvæmdaáætlun hefði verið fylgt, ef ákvarðanir hefðu verið teknar um frekari virkjanir, t.d. í neðri Þjórsá þar sem undirbúningur væri mjög langt kominn, þá sjáum við að framkvæmdir við þær virkjanir og uppbyggingu iðnaðar samhliða því væru komnar af fullum krafti inn í efnahagsumhverfi okkar með tilheyrandi áhrifum.

Það er sennilega ekki ofsögum sagt að á síðustu þremur árum eða á þessu kjörtímabili höfum við með þeirri óvissu sem íslenskum sjávarútvegi hefur verið haldið í og þeirri stefnu sem rekin hefur verið í orkufrekum iðnaði, séð á bak allt að 200 milljarða fjárfestingu í landinu, (BVG: 400–600.) jafnvel meira. (Gripið fram í.) Ég heyri að hv. þm. Björn Valur Gíslason býður betur og vill hafa það jafnvel 400 eða 600 milljarða. En við getum öll ímyndað okkur hvernig þetta liti út í dag ef þessi beina erlenda fjárfesting auk innlendrar fjárfestingar hefði átt sér stað á þessu tímabili, hvað við værum mikið betur í stakk búin til að efla heilbrigðisþjónustu í landinu og menntakerfið og standa við öll þau fögru fyrirheit sem ríkisstjórnin kýs að fara fram með þessa dagana, nokkrum dögum fyrir kosningar í einhverjum loforðapökkum. Þeir koma fram í frumvarpsformi sem aldrei verður hægt að standa við með stefnu vinstri manna sem hér hafa farið fram síðustu fjögur ár. Því miður er það staðreyndin.

Spurt hefur verið um Helguvík. Hvar er samningurinn þar? Hvar er stuðningurinn við það verkefni? (Utanrrh.: Hér.) Hvar er stuðningurinn við hann í raun? Hæstv. utanríkisráðherra er eins og sprellikarl og veifar hér höndum (Gripið fram í.) og segist styðja það mál. (Gripið fram í.) En hvað hefur hæstv. utanríkisráðherra sýnt í raun? Hvað hefur hæstv. atvinnuvega- og auðlindaráðherra í raun sýnt í stuðningi við það verkefni? (Utanrrh.: Fjárfestingarsamninginn.) Hvað hafa menn staðið við? Hvar hefur þessi ríkisstjórn verið til að ýta á eftir því verkefni sem komið er svo langt sem raun ber vitni? Hún hefur farið í felur í því verkefni eins og svo mörgum öðrum, vegna þess að álver má ekki nefna. (REÁ: Alls ekki á Suðurnesjum.) Alls ekki á Suðurnesjum, nei, þar sem öllu fögru var lofað eins og herminjasafni og einhverjum fleiri slíkum bröndurum, liggur mér við að orða það. Það er ekki hægt að kalla þann leik hæstv. ríkisstjórnar annað en brandara, þ.e. það sem þeir fóru fram með á þeim vettvangi.

Á vordögum 2011, held ég frekar en 2010, sagði hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra Katrín Júlíusdóttir Þingeyingum og þingheimi að nú skyldu menn undirbúa sig á næstu missirum undir stórkostlegar framkvæmdir á svæðinu. Ég held að það hafi verið 2011, það má hafa verið 2010. Það er alla vega liðinn langur tími. Þá var undirrituð viljayfirlýsing milli ríkisstjórnar Íslands og sveitarfélaganna fyrir norðan um að takast á við umfangsmikla atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslu. Og núna — öðruvísi mér áður brá — er það hæstv. atvinnu- og auðlindaráðherra Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Norðausturkjördæmis, sem mælir hér fyrir frumvörpum um stóriðju, orkufrekan iðnað á svæðinu. Ég ítreka að þó að ég sé að fara yfir gagnrýni á ríkisstjórnina í þessum málum fagna ég virkilega með Þingeyingum á þessum tímamótum. (Gripið fram í.)

Saga Bakka er í þessu tilliti sorgarsaga. Stórfyrirtæki, sem hefur sýnt af sér mikinn metnað um að vera með trausta starfsemi, öruggt umhverfi fyrir starfsfólk sitt, hefur öryggismál í heiðri, hefur sýnt mikinn vilja til að efla framleiðslu sína austur á Reyðarfirði, Alcoa, var ýtt í burtu. Í október 2009 rann út beiðni Alcoa um framlengingu á viljayfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands, Norðurþings og Alcoa og var beiðni þeirra hafnað. Ríkisstjórnin hafnaði því. Eftir að forustumenn Alcoa, stjórnarformaður eða forstjóri og stjórnarmenn komu hingað til að leggja áherslu á það við ríkisstjórn Íslands að það mikil alvara væri á ferðum hjá fyrirtækjum að byggja þar upp alvöruiðnað, sáu þeir að það var eins og að tala við ljósastaur sem slökkt væri á að tala við hæstv. ríkisstjórn. Það var ekkert annað.

Í dag er verið að semja við fyrirtæki sem er með margfalt minni fjárfestingu á prjónunum. Ætli hún sé nema fimmtungur af því sem fyrirhugað var? Útflutningsverðmætin verða margfalt minni, gjaldeyririnn sem við fáum fyrir framleiðsluna verður margfalt minni en við hefðum fengið í formi hins umhverfisvæna málms, áls, sem annars hefði verið fluttur út frá Bakka, margfalt minni.

Það er mjög sérstakt að þessi ríkisstjórnarflokkur, Vinstri grænir, sem segist vera umhverfisvænn, sé nú að skrifa undir samning um verksmiðju þar sem mengun af framleiðslunni er fimm sinnum meiri á hvert framleitt tonn en í álveri, fimm sinnum meiri. Staðreyndin er nefnilega sú að álið er umhverfisvænt og þessi umhverfissinnaði flokkur, Vinstri grænir, ætti í raun að hafa forgöngu um og berjast fyrir því að slíkar verksmiðjur risu hér og við flyttum út þann málm sem er í umhverfislegu tilliti það besta sem hægt er að framleiða, það er margsýnt. Nærtækast er að taka dæmi um gosdósirnar sem fara í endurvinnslu í Evrópu og eru tveim mánuðum seinna komnar fullar af gosi í hillur stórmarkaðanna aftur þar sem yfir 80% af þeim málmi hefur verið endurunninn frá því að framleiðsla hófst í kringum 1880. En sú blinda afstaða og andstaða sem hv. þingmenn sem þessum flokki og fleirum tilheyra hafa haft gegn stóriðju í álframleiðslu, hefur byrgt sýn. Menn hafa ekki horft á þetta réttum augum.

Ríkið verður í þessu tilliti af gríðarlega miklum fjármunum sem annars hefðu getað verið farnir að skila sér að miklu leyti inn í íslenskt efnahagsumhverfi, ef rétt hefði verið að málum staðið, uppbyggingin væri sennilega á fullum skriði. Þannig er áætlað að ríkissjóður verði að greiða rúmlega 3 milljarða í innviðauppbyggingu. Einhvers staðar var þetta nú allt sundurliðað, það væri gaman að geta talið það upp en það skiptir kannski ekki öllu máli. Alla vega verður ríkissjóður af stórkostlegum fjármunum og hefði verið nær að nota þá fjármuni í að byggja upp eitthvað annað. Ef við hefðum farið í framkvæmdir með Alcoa eða öðrum sambærilegum á Bakka hefði framkvæmdaraðilinn og þeir líklega borgað fyrir það allt saman fyrir utan það að tekjurnar á höfninni hefðu orðið miklu meiri. En hér er reiknað með að víkjandi lán vegna hafnarframkvæmdanna frá ríkissjóði verði um 820 millj. kr. Samkvæmt úttekt sem gerð var af Páli Jenssyni prófessor er ekki gert ráð fyrir að sjóðurinn greiði af því láni þar sem höfnin verði rekin með tapi, a.m.k. á meðan frekari starfsemi kemur á staðinn, þannig að þetta mun kosta á 4. milljarð og það kemur frá ríkissjóði.

Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að um verkefni sem þetta séu gerðir sérstakir ívilnanasamningar. (Gripið fram í.) Það er vel þekkt hjá þjóðum sem við keppum við þegar við reynum að laða hingað til lands beina erlenda fjárfestingu. Við verðum að standa okkur í þeirri samkeppni. Við eigum endurnýjanlega raforku sem framleidd er á mjög umhverfisvænan hátt, hún er eftirsóknarverð. Því er starfsemi þessara fyrirtækja grænni en ella ef fyrirtækin nýta t.d. raforku frá orkuverum sem kynt eru með kolum, olíu eða gasi. Þarna höfum við ákveðið forskot til að bjóða fyrirtækjum en auðvitað verðum við í skattalegu og gjaldalegu tilliti og umhverfi að spila með aðilum og vera samkeppnishæf. Ég fagna þeirri stefnubreytingu sem er að verða hjá núverandi ríkisstjórn í þessum efnum. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem kallað hafa eftir svörum frá hæstv. ráðherra um hvar samningar t.d. gagnvart Helguvík séu, hver áhuginn sé á því verkefni. Það er mjög mikilvægt að við fáum svör við því hvort hér er um eitthvert kosningaútspil til heimabrúks að ræða eða hvort hér er einhver raunveruleg stefnubreytingu á ferðinni, að menn hafi loksins séð ljósið, séu loksins farnir að hlusta á okkur sjálfstæðismenn vegna þess að svona erum við búnir að tala fyrir allt kjörtímabilið. Allt kjörtímabilið höfum við talað fyrir því. Nú eru Vinstri grænir búnir að viðurkenna nauðsynlega aðkomu ríkisvaldsins til að hvetja til slíkrar fjárfestingar.

Virðulegur forseti. Ég vil á þessum tímamótum óska Þingeyingum alveg sérstaklega til hamingju. Það er auðvitað gríðarlega mikill áfangi í þeirri sveit og fyrir okkur öll í landinu (Forseti hringir.) að við skulum þó vera komin hingað með næsta samning um orkufrekan iðnað til uppbyggingar á þessu landi. (Forseti hringir.) Ég get lofað þjóðinni því að verði Sjálfstæðisflokkur við völd á næsta kjörtímabili munu þeir fleiri sjá dagsins ljós strax á þessu ári.