141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[21:37]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hér stendur yfir 1. umr. um tvö frumvörp, skyld, tvíburafrumvörp eins konar, og í þingsköpum stendur að í 1. umr. eigi að tala almennt um frumvörpin, síðan skoði þingnefnd málin og leggi niðurstöðu sína fyrir þingið. Ég ætla hér að tala almennt um þessi frumvörp þó að ég fari jafnframt í nokkur atriði í þeim.

Fyrst vil ég segja: Síðan stóriðja hófst hér á Íslandi, sú stóriðja sem ég tel, og flokkur minn Samfylkingin, í ályktun á landsfundi sínum, að sé að renna sitt skeið — ekki með þeim hætti að stóriðjufyrirtæki séu að líða undir lok, hvorki þau sem eru né einhver ný, en að stóriðjuöldin, einblíning á stóriðjukostina sem atvinnuuppbyggingu á Íslandi, sé að hnigna af ýmsum ástæðum sem ég hef því miður ekki tíma til að fara út í hér en skal gera síðar — þá hefur uppbyggingin fram á síðustu ár farið þannig fram að Íslendingar hafa tekið þátt í eins konar kapphlaupi, eins konar öfugu uppboði þar sem fyrirtækin sitja eins og heimasætur og bíða eftir bestu tilboðum — fræg er auglýsingin Lowest Energy Prices sem hér var gefin út sem fyrirsögn á bæklingi frá iðnaðarráðuneytinu — og síðan eru samningarnir gerðir við orkusalann, við ríkið, við sveitarfélagið og hafnirnar.

Þegar sköpuð voru lögin sem eru nr. 99/2010, og eru um ívilnanir til erlendra fyrirtækja, var í gangi viðleitni til að breyta þessu. Menn viðurkenndu fúslega og vissulega að þegar erlendir menn eða íslenskir koma með mikla peninga og eru tilbúnir að setja þá í atvinnurekstur á Íslandi þá er sjálfsagt að tryggja mönnum ákveðið svigrúm, taka með einhverjum hætti þátt í áhættu þeirra. En menn sögðu líka með þessum lögum, og það er hægt að lesa upp úr umræðum um þau og framsöguræðum, nefndarálitum, blaðagreinum, eins og gert var fyrr í þessari umræðu: Það verður að vera jafnræði. Fyrirtækin verða að geta stólað á það að eitt sé ekki sett hærra en hitt og almenningur á Íslandi verður líka að geta stólað á það að stjórnmálamennirnir, að forustumenn í ríki og sveit, og forustumenn orkufyrirtækjanna, sem eru að 95 hundraðshlutum í eigu almennings, að þeir stilli sig, að þeir fari að vissum leikreglum, að þeir sýni það sem við Samfylkingarmenn höfum kallað stjórnfestu í þessum efnum.

Þegar lögin nr. 99/2010, voru sett var talað um, eins og hér var rifjað upp áðan, það gerði hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir, að tími hinna sérstöku samninga væri liðinn. Það má taka til marks um það að einmitt þegar þessi lög voru samþykkt var í gangi hér samningur við fyrirtæki sem heitir Verne Holdings, held ég, upp á ensku, og samþykkt um það sérstök lög sem eru nr. 57/2010, en það sem gerðist síðan var það að samningurinn við það fyrirtæki var lagaður að lögunum nr. 99/2010, sem var jákvætt. Það var sem sé reynt að renna í það far. Ég held að samningurinn við Becromal hafi með einhverjum hætti líka verið lagaður að þessum lögum en með því frumvarpi sem hér er á dagskrá, 1. umr. er á dagskrá á sama tíma og 2. umr., um breytingarfrumvarp á ívilnunarlögunum, er brotið í blað. Það hlýtur að vekja spurningar sem svör hæstv. ráðherra áðan dugðu ekki til að svara og nefndin hlýtur að leita eftir skýrari svörum við þeim spurningum.

Ráðherrann sagði að þetta væri svona í meira samræmi við það frumvarp sem núna er flutt til breytinga á ívilnunarlögunum heldur en við lögin sjálf og verður að virða honum það til vorkunnar að það er rétt hjá honum að í vissum atriðum er það svo, í öðrum ekki. Það má halda hér langa ræðu um tryggingagjald og ég geri það kannski síðar í umræðunni en það er auðvitað svo að það að veita fyrirtæki 100% afslátt, að afnema tryggingagjald hjá fyrirtæki, er nokkuð stórt skref. Lögin tala um 20% tryggingagjald, ég veit það ekki en mig grunar að þetta sé í raun og veru ekki farið að ganga og það sést best á því að ríkisskattstjóri veit ekki enn þá hvernig þetta á að funkera, hvernig skatturinn á að greiðast vegna þess að tryggingagjaldið er samsett en litið á það í skattalegu tilliti sem eitt gjald. Í frumvarpinu er stigið stórt skref í þessu, upp í 50%. En hér á eitt fyrirtæki á landinu, fyrir utan erlend sendiráð, sem er sérstakt mál samkvæmt Vínarsamningnum, sem hæstv. utanríkisráðherra þekkir manna best, sem hér situr, að fyrir utan erlendu sendiráðin er eitt fyrirtæki á landinu sem á ekki að greiða tryggingagjald.

Hverjir greiða þá tryggingagjaldið? Því að tryggingagjaldið er greitt, það hefur komið fram hjá hæstv. fjármálaráðherra í fyrirspurn hér í gær eða fyrradag og hjá hæstv. fjármálaráðherra. Það erum við hin, það eru hin fyrirtækin og við starfsmenn þeirra, þetta er auðvitað með ákveðnum hætti hluti af okkar launum, sem greiðum tryggingagjaldið fyrir starfsmenn þessa fyrirtækis. Hver er skýringin á þessu í greinargerðinni? Jú, hún er sú að spekingar hafa fundið það út að fyrirtækjunum sé illa við of há laun, það sé eitt af því sem hindri fyrirtækin í að gera samning, það séu of há laun og þá sé hægt að losa um þau með þessum hætti. En talsmenn — nú vantar hv. þm. Jón Gunnarsson sem ég lít alltaf framan í þegar ég ræði um stóriðju hér í salnum — stóriðjunnar hafa einmitt sagt: Þetta hækkar svo launin hjá okkur og það gerði það vissulega. Þegar Ísal varð til og fór að reka verksmiðjuna þá hækkuðu laun, launin hjá Ísal voru hærri en hjá samsvarandi starfsstéttum annars staðar. Það hefur gert það en núna á sem sé að lækka launin. Þetta er undarlegt og gengur mjög illa upp og þegar maður veit um sögu tryggingagjaldsins þá vekur þetta líka spurningar.

Einu sinni var tryggingagjaldið þannig skattur að góði atvinnureksturinn borgaði lítið tryggingagjald — og nú horfi ég framan í Ásbjörn Óttarsson sem einmitt var góður atvinnurekandi á þeim tíma; sjávarútvegurinn borgaði lítið tryggingagjald — en vondur atvinnurekstur, verslun og þjónusta og alls konar siðspilling, borgaði hátt tryggingagjald og við virðumst vera farin að renna í þetta aftur. Ég hef talað of mikið um þetta en ég hvet nefndina til að athuga þetta mál og leita álits hjá hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

Ég verð að segja það með lögin nr. 99/2010 að þegar ég veitti andspyrnu sérlögunum um álverið í Helguvík, sem reis nú ekki þó að ég tapaði þeirri orustu hér á þinginu, þá taldi ég það kannski fyrstu og fremstu ástæðuna, látum vera með Helguvík í sjálfu sér, alveg eins og ég er hér ekki að ræða í prinsippinu kísilmálmverksmiðju á Húsavík, að ekki væru til almenn lög um þetta og áður en þau yrðu til væri ekki hægt að gera slíka samninga. Við töpuðum þessari deilu, ég og hv. þingmaður, sem þá var, Steingrímur J. Sigfússon og sjö þingmenn í viðbót sem allir voru í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, nema sá sem hér stendur, en við höfðum rétt fyrir okkur. Það á ekki að gera svona samninga nema almenna þannig að fyrirtækin njóti jafnræðis þannig að almenningur geti verið viss um hvað er í gangi.

Það sem hér þarf að svara, það sem nefndin þarf að finna út, er auðvitað það sem ég var að reyna að spyrja um áðan: Hvað gera þau sex fyrirtæki sem þegar hefur verið samið við? Þar af eru þrír samningar virkir. Þau hljóta að koma og vilja fá samninga sína endurskoðaða þegar þessi samningur hefur verið gerður við þetta fyrirtæki sem er að setjast að á Húsavík. Hvað gerist í Helguvík? Hér kalla þingmenn, eins og háttur er og venja á þinginu, eftir því að það sama gerist hjá þeim og gerist í Helguvík, hv. þingmenn Suðurkjördæmis kalla að sjálfsögðu eftir því að það sama gerist og þau fyrirtæki sem setjast að í Helguvík kalla sjálfsagt eftir því að fá sömu samninga.

Getur verið að þegar hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra segir nei, þetta er alveg sérstakt svæði á Húsavík, getur verið að þessi fyrirtæki fari í mál? Að það frumvarp sem hér á að samþykkja skapi bótaskyldu? Að þessi fyrirtæki geti sótt bætur til íslenska ríkisins, þannig að kostnaðurinn við Húsavíkur-uppbygginguna verði enn þá meiri? Ég veit það ekki. Ég vonast til þess að nefndin leiti svara við þessu. Hér situr formaður hennar, hv. þm. Kristján L. Möller, og er nákvæmur og samviskusamur og getur svarað þessu strax í 2. umr. um málið.

Seinna frumvarpið er líka nokkuð veglegt. Þar ætlar hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra að taka þátt í því fyrir okkar hönd að byggja höfnina og hann ætlar meðal annars að lána til þess 819 millj. kr. Það er víkjandi lán en ekki þarf að greiða það nema höfnin standi undir sér á tilteknu árabili og í arðsemismati, sem gert hefur verið, er höfnin í halla allan þann tíma ef ekkert meira gerist þannig að við erum að taka þar þátt í — með réttu eða röngu, nefndin finnur það út — ákveðnu happdrætti. Ef það gengur að fá fleiri fyrirtæki inn í þessa iðngarða, eins og sumir hafa kallað þá, verður hugsanlega eitthvað af láninu greitt, ef ekki þá kostar þetta 819 milljónir, vaxtalausar eiga þær reyndar að vera þannig að lánið verður auðvitað ekki greitt að fullu á neinu markaðsverði.

Það er líka spurt um það, í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, með hvaða hætti þetta komi við sögu í fjárlögum. Það er eðlileg spurning og það verður þess vegna mjög mikilvægt fyrir fjárhag ríkisins að laða að frekari fjárfestingar á Bakka í framtíðinni. Það þýðir auðvitað að ríkið þarf að leggja sig fram við að veita enn frekari afslátt, að veita þau kjör hinum nýju fyrirtækjum að þau sjái sér sérstakan hag í því að taka þátt í að koma á Bakka. Þannig að ríkið er að setja sig í afar slæma samningsstöðu, ég sé ekki betur en að það sé þannig.

Þar að auki stendur í greinargerðinni að óvissa sé um fjárhagsstöðu Norðurþings og getu sveitarfélagsins til að fjármagna og standa undir rekstrarkostnaði á uppbyggingartímanum án frekari aðstoðar frá ríkinu. Ég sé ekki betur, forseti, en að þarna sé hæstv. ráðherra að segja okkur að jafnvel sé von á frekari frumvörpum og þingmálum vegna þess að við þurfum að hjálpa Norðurþingi að reka höfnina á uppbyggingartímanum. Þetta stendur í athugasemdunum við frumvarpið og ég spyr um þetta: Hvað merkir það?

Við þurfum sannarlega erlenda fjárfestingu. Ég vonaðist og vonast eftir einhverju nýrra og skærra en nýrri járnblendiverksmiðju en ég er ekki að tala efnislega um það hér. Ég er hins vegar að segja að nefndin þarf að skoða mjög vel þessi frumvörp. Hún þarf að athuga hver er hin þjóðhagslega hagkvæmni af þessu máli einu saman. Hún þarf að vega það, eins og fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins leggur til, eða gerir kröfu um, saman við þau miklu útgjöld sem ríkið verður hér fyrir. Hún þarf að taka tillit til þess að hér er mikil óvissa. Það er sex mánaða óvissa um svar frá ESA. Mat á umhverfisáhrifum er í gangi, lög um ívilnanir eru að breytast. Það er óljóst um afstöðu annarra fyrirtækja sem þegar hafa samning og algjörlega óljóst hvaða kjör næstu fyrirtækjum þurfa að bjóðast. Það er óljóst um, eins og ég nefndi áðan, frekari stuðning ríkisins við rekstur þeirrar hafnar sem hér er að koma upp og ekki er heldur ljóst hvernig fjármögnun þessara verkefna er nákvæmlega háttað. Ég sé ekki betur en þetta eigi að koma út sem aukinn hallarekstur á næstu árum og sá hallarekstur hefur ekki verið kynntur hér inn í áætlanir í ríkisfjármálum.

Ég fagna því ef nú verða til 127 störf í Þingeyjarsýslum og á Húsavík en við eigum ekki að kaupa þau störf. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson sagði hér áðan, í miðri lofræðu sinni um þetta verkefni, að það væri vissulega, með leyfi forseta, dýru verði keypt. Mín lokaorð hér verða þau að ég tel í þessari 1. umr. að svo mikil óvissa sé í gangi um þessi mál bæði að ég tel að nefndin eigi að íhuga alveg sérstaklega (Forseti hringir.) hvort ekki er rétt að bíða með þessi frumvörp fram á næsta þing, fram á þingið í sumar eða öllu heldur þingið í haust.