141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[22:33]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hefði haft gaman af því að ræða betur um atvinnuuppbyggingu almennt og hvernig þetta verkefni samrýmist þeim áherslum sem ég að minnsta kosti hef staðið fyrir og að ég tel minn flokkur. Við höfum verið talsmenn aukinnar fjölbreytni í atvinnumálum, við höfum lagt mikla áherslu á það að menn stuðluðu ekki síður að uppbyggingu lítilla og meðalstórra fyrirtækja heldur en fárra og risastórra verkefna og þetta rímar ákaflega vel við það. Þannig að ég á ekki í erfiðleikum með að standa keikur með því. Hér er verið að virkja orku á svæðum sem þegar eru komin í nýtingarflokk og að því tilskildu að umhverfismat og annað slíkt leiði í ljós að þetta sé innan ásættanlegra marka þá tel ég að við getum verið sæmilega sátt við það.

Varðandi losunina, sem vissulega er til staðar og er talsverð á hverja framleidda einingu í þessum iðnaði en er alls ekki sambærileg við áliðnað að því leyti til að hér er um allt aðra endaafurð að ræða, þá fer með það eins og aðrar slíkar losunarheimildir í því regluverki sem við erum bundin af að menn verða að kaupa sér heimildir fyrir losuninni. Það er innan þess regluverks sem við erum nú aðilar að.

Varðandi síðan Helguvíkurhöfn vil ég orða þetta svona: Að mínu mati er það alveg ljóst að ef þörf er á aðkomu ríkisins að uppbyggingu innviða á Suðurnesjum eða annars staðar þar sem leggja má aðstæður að jöfnu, að þar þurfi þá að koma til og sé réttlætanlegt að ríkið komið að málum — já, þá verður það að sjálfsögðu skoðað með hliðsjón af þessu. En ekki er hægt að segja að öll mál séu sambærileg í þeim efnum einfaldlega vegna þess að aðstæðurnar eru metnar í hverju fjárfestingarverkefni fyrir sig og þannig hlýtur það að verða.

Mér finnst til dæmis augljóst að þetta mál skapar ekki á nokkurn hátt fordæmi fyrir iðnfyrirtæki sem kynnu að koma núna og vilja staðsetja sig á Grundartanga eða þess vegna á Reyðarfirði því að þar er allt um garð gengið sem tengist aðkomu stjórnvalda (Forseti hringir.) að upphafskostnaði við svæði og verkefni af þessu tagi.