141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[22:35]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þarna kom hæstv. ráðherra inn á mikilvægan punkt. Hann nefndi Reyðarfjörð í framsöguræðu sinni áðan sem fordæmi fyrir því sem verið er að gera núna á Bakka, nefnir svo að ekki væri hægt að fara fram á hið sama á Grundartanga eða Reyðarfirði vegna þess að þar hefði uppbyggingin átt sér stað. Þar sker Helguvík sig úr. Höfnin hefur verið byggð upp en á kostnað sveitarfélagsins, lóðirnar hafa verið byggðar upp á kostnað fyrirtækjanna og sveitarfélagsins. Uppbyggingin hefur jú sannarlega átt sér stað en ekki með þátttöku ríkisins í fjármögnun eins og þau fordæmi sem hæstv. ráðherra nefndi; Bakki með þessu frumvarpi, Reyðarfjörður og Grundartangi.

Þar sker Helguvík sig úr sem eina svæðið af þessum fjórum sem hefur ekki fengið sams konar fyrirgreiðslu og hin svæðin. Varðandi atvinnuuppbyggingu þá erum við sjálfstæðismenn ekki, til að taka af allan vafa, að tala fyrir einni lausn og hæstv. ráðherra hlýtur að taka undir það í allri sanngirni að við höfum talað fyrir mjög margvíslegri atvinnuuppbyggingu allt kjörtímabilið og áður. Ef ég tala bara um Suðurnesin get ég nefnt fjölmörg verkefni sem því miður hafa ekki orðið að veruleika, þar má nefna uppbyggingu heilsutengdrar ferðaþjónustu á Ásbrú, flugverkefni sem veita átti flugvirkjum og verkfræðingum góð störf. Það mátti ekki. Ég er að tala um uppbyggingu í menntamálum við ferðaþjónustu, við höfum talað fyrir þessu öllu þannig að það sé sagt.

Punkturinn er þessi: (Forseti hringir.) Fordæmin — það er ekki bara hægt að nota þau þegar það hentar — sem ég les úr máli (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra er einmitt það að Helguvík sker sig úr miðað við önnur svæði sem hann (Forseti hringir.) hefur notað sem dæmi í málflutningi sínum.