141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

lengd þingfundar.

[11:13]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Mér finnst þetta vel boðið hjá hv. þingmanni og er reiðubúinn að koma í Dalina. Ég er vanur maður í sauðburði. (Gripið fram í.) Ég var alinn upp að hálfu leyti hjá góðum framsóknarmönnum á Mýrum og var þar í sauðburði í átta ár á mínum yngri árum og lukkaðist vel, og reyndar víðar eftir að ég eltist. Ég vil þá skora á hv. þingheim að gera allt sem hann getur til að það sé hægt að við förum saman í sauðburðinn. Þá þurfa menn að hætta öllu málþófi og láta það yfir sig ganga að þurfa kannski að vinna stundum fram yfir kvöldmat og jafnvel inn í rökkrið.

Ef það má verða til þess að við getum komist til þessara undirstöðustarfa saman og þar með kannski notað tímann eftir kosningar til að mynda ríkisstjórn, eitthvað slíkt, er ég til í það. [Hlátur í þingsal.]