141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

vörugjald og tollalög.

619. mál
[11:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Hér er um að ræða frumvarp sem lýtur að vörugjöldum og tollum og þeim breytingum sem gerðar voru á þeim lögum í desember síðastliðnum og sneru að því sem kallað hefur verið sykurskattur. Sú löggjöf nær til mikils fjölda tollnúmera og eru margar vörur í hverju tollnúmeri. Það er ákaflega flókið kerfi eins og þingmenn þekkja og er í stöðugri endurskoðun. Við þá vinnu sem síðan hefur farið fram við innleiðingu á þeirri löggjöf sem hér var hafa komið fram ýmsar gagnlegar ábendingar um úrbætur sem mætti gera með því að flytja einstakar vörur á milli flokka og skýra og skerpa á einstökum liðum; breytingar eins og þær að undanskilja hunang frá þessum gjöldum enda sé þar enginn viðbættur sykur á ferðinni heldur náttúrulegt efni, og aðrar smávægilegar breytingar.

Við því er að búast að slíkar breytingar þurfi að gera á vörugjaldakerfinu og einstökum tollskrárnúmerum frá einum tíma til annars eftir því sem nýjar vörur koma inn á markaðinn og eftir því sem ný sjónarmið koma fram. Þá þurfum við að flytja hér mál til þess að leiðrétta það. Það er út af fyrir sig í mörgum málum þannig að ákvörðun um svona einstök útfærsluatriði er skipað í reglugerð eða með öðrum hætti á færi viðkomandi ráðuneyta að hnika framkvæmdaatriðum til innan lagarammans. Þetta eru skattar og samkvæmt eðli málsins verða skattar ekki lagðir á eða teknir af nema með lögum og þess vegna þurfa breytingar sem verða á vörugjaldakerfinu hverju sinni að koma hingað inn til lögfestingar.

Við notum síðan ferðina, ef svo má segja, og gerum lítils háttar ívilnandi breytingar á hámarki þeirrar fjárhæðar sem einstök vara má kosta sem menn koma með til landsins til samræmis við þær breytingar sem gerðar voru á öðrum hámörkum í desembermánuði síðastliðnum. Það er smávægileg breyting. Tvenns konar sjónarmið voru um hvernig ætti að túlka hámarkið. Annars vegar voru þau sjónarmið frá tollstjóra að eðlilegt væri að gera það líkt og gert er innan Evrópusambandsins þannig að séu menn með vöru sem kostar umfram þau mörk þá greiði þeir af allri fjárhæðinni, en það sjónarmið var uppi af hálfu ráðuneytisins að rétt væri að halda þeirri framkvæmd sem verið hefur og menn greiði þá aðeins gjöld af því sem er umfram hámarkið og er það afstaða meiri hlutans að leggja til hið síðara, þ.e. að halda framkvæmdinni óbreyttri, enda er það einfaldast.

Á álitinu eru auk þess sem hér stendur hv. þingmenn Magnús Orri Schram, Oddný Harðardóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Álfheiður Ingadóttir. Leggjum við til að að lokinni þessari umræðu verði málið samþykkt með þeim breytingartillögum sem meiri hlutinn gerir.