141. löggjafarþing — 93. fundur,  9. mars 2013.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

630. mál
[11:44]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri mér að sjálfsögðu grein fyrir því að þessu máli fylgir kostnaður. Það sem ekki hefur verið metið af hálfu stjórnvalda, en ég hef núna beðið um að verði metið, eru hin þjóðhagslegu áhrif. Þó að hvatar séu innbyggðir í námslánakerfið núna er miðað við kerfið hægt að ljúka 90 einingum eins og það var reiknað, þ.e. 180 nýjum einingum, til BA-prófs án þess að ljúka téðri lokaritgerð og fá samt full námslán af því maður er með 75% námsframvindu. Svo getur ritgerðin þess vegna beðið lengi. Við sjáum það á tölum úr íslenska háskólakerfinu að þeir nemendur mælast sem brotthvarf þar til þeir ljúka námi.

Brotthvarf er þannig verulegt í íslensku háskólakerfi. Við höfum einblínt á framhaldsskólakerfið en þetta á líka að einhverju leyti við um háskólakerfið. Svona hvati gæti orðið til þess að draga úr kostnaði háskólamegin fyrir utan að það eru þjóðhagsleg áhrif fyrir samfélagið að fá þetta fólk út til starfa eða til frekara náms.