141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[11:13]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það hefur verið boðað til kosninga. Almennar þingkosningar verða haldnar 27. apríl næstkomandi. Íslendingar eru þegar farnir að ganga að kjörborðinu í utankjörfundi. Hér í þinginu sjáum við hilla undir lok þingstarfa og við ræðum tillögu hv. þm. Þórs Saaris um að þing skuli rofið og efnt til almennra þingkosninga. Þetta er ekki fyrsta vantrauststillaga hv. þingmanns, það er nánast vikuleg iðja þessa dagana, og í það nýtir Alþingi Íslendinga tíma sinn núna.

Af hverju ræðum við þá tillögu að lýsa vantrausti á ríkisstjórn og að boðað skuli til kosninga þegar sjö vikur eru til kosninga? Jú, hv. þingmaður vill koma ríkisstjórninni frá og setja nýja stjórn, starfsstjórn allra flokka, koma frá ríkisstjórn sem hefur setið við völd á kjörtímabili þar sem aldrei hefur farið fram meiri vinna við endurskoðun stjórnarskrárinnar en á einmitt því kjörtímabili.

Hv. þingmaður fór mjög vel yfir það í framsögu sinni. Það var haldinn þjóðfundur. Stjórnlaganefnd starfaði sem undirbjó þjóðfundinn og vann úr þeim tillögum sem komu fram þar. Við kusum til stjórnlagaráðs og við þekkjum þá sögu. Stjórnlagaráð var skipað, starfaði og skilaði tillögum sínum sem voru unnar áfram í þinginu. Haustið 2012 var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla, bæði um hvort byggja ætti nýja stjórnarskrá á grunni tillagna stjórnlagaráðs og líka voru greidd atkvæði um einstök atriði, auðlindaákvæði, persónukjör, þjóðkirkju, beint lýðræði og jafnt vægi atkvæða.

Í stuttu máli sagt hefur alveg gríðarleg vinna farið fram á þessu kjörtímabili við endurskoðun stjórnarskrár. Ég leyfi mér að segja að ég held að aldrei hafi verið meiri umræða og aldrei hafi farið fram meiri vinna hjá þjóðinni við endurskoðun stjórnarskrár en á þessu kjörtímabili. Mér er til efs að almenningur í landinu hafi tekið jafnmikla grundvallarumræðu um endurskoðun stjórnarskrár og að jafnmikið hafi verið fjallað um endurskoðun stjórnarskrár í fjölmiðlum og gert hefur verið á þessu kjörtímabili. Það er ríkisstjórnin sem hefur setið á þessu kjörtímabili sem hv. þingmaður vill koma frá.

Í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar vann Alþingi málið áfram og ég er alveg sammála því sem hefur verið sagt, ég tel sameiginlega vinnu þings og þjóðar mjög merkilega. Hins vegar skil ég ekki röksemdafærslu hv. þm. Þórs Saaris um tillögu okkar hv. þingmanna, þeirrar sem hér stendur, Árna Páls Árnasonar og Guðmundar Steingrímssonar, um að unnt verði að vinna málið áfram á næsta kjörtímabili með því að leggja til breytingar á breytingarákvæði. Þannig verði hægt að ljúka málinu á næsta kjörtímabili, ekki þurfi að láta tvö þing samþykkja nýja stjórnarskrá heldur verði hægt að ljúka málinu til að mynda samhliða sveitarstjórnarkosningum 2014 með því að bera málið undir Alþingi, og fá hér t.d. 60% atkvæða eins og við leggjum til, og síðan undir þjóðina og fá aftur 60% atkvæða. Ég skil ekki alveg hvernig hv. þingmaður sér framhald málsins fyrir sér og hann dæmir þá tilraun til að reyna að ná samkomulagi um að ljúka málinu, lítur á hana sem þá litlu þúfu sem eigi að velta þungu hlassi. Hv. þingmanni er fullljóst að málinu verður ekki eingöngu lokið á þessu þingi heldur þarf líka að ljúka því á því næsta.

Kannski sýnir vantrauststillagan að hv. þingmaður vill fremur en að gera málamiðlanir til að koma málum áfram standa hreinn eftir með því að fella þá stjórn sem hefur unnið hvað mest að framgangi málsins. Kannski vill hv. þingmaður ekki bera ábyrgð á neinum þeim málamiðlunum sem kunna að vera til þess fallnar að færa málið áfram. Allt í góðu, ég skal bera þá ábyrgð en mér finnst það ekki góð röksemdafærsla því að breytingarákvæðið er tilraun til að tryggja áframhaldandi vinnu málsins án þess að framlengja hana um heilt kjörtímabil í viðbót. Breytingarákvæðið er markvisst teikn um að við viljum ljúka málinu. Tillaga hv. þingmanns er hins vegar markviss tilraun til að drepa stjórnarskrármálið endanlega.

Hv. þingmanni varð mjög tíðrætt um lýðræðissamfélagið og það er alveg rétt. Ég hef mikið velt því fyrir mér að þegar þeir sem tala um gildandi stjórnarskrá eins og hið endanlega plagg, og þá er ég að tala um þá stjórnarskrá sem við eigum núna, finnst mér þeir ekki hugsa mjög í anda lýðræðissamfélagsins því stjórnarskrá, lög og reglur eru þrátt fyrir allt textar sem við setjum á blað. Lýðræðissamfélag snýst um hvernig við hugsum, hvernig við vinnum og hvað við gerum þannig að gildandi stjórnarskrá er svo sannarlega ekki endanleg skipan mála í lýðræðissamfélagi. Sú stjórnarskrá sem við höfum verið að ræða í þinginu er heldur ekki endanleg skipan mála eða endanlegur sannleikur. Ég hef hins vegar talið hana góðan grunn að stjórnskipan íslensks samfélags og stutt það að þingið reyndi að ljúka umræðu um málið með þeim breytingum sem menn teldu nauðsynlegar.

Ég átta mig hins vegar líka á því að í lýðræðissamfélagi tekur umræða tíma. Ég er ekki að tala um umræðuna sem við eigum stundum í þinginu um hvað klukkan sé, hvað sé næst á dagskrá eða hvenær forseti hyggist halda þingflokksformannafund, eins og við notum tímann allmikið í í þinginu. Ég er að tala um raunverulega umræðu og hana er auðvitað nauðsynlegt að eiga um nýja stjórnarskrá. Í lýðræðissamfélagi getur líka verið eðlilegt að staldra við á hverri vegferð, ígrunda ákvarðanir og hika þegar skerðast fer um tímann. Ég hef því ásamt hv. þingmönnum Árna Páli Árnasyni og Guðmundi Steingrímssyni lagt þetta til til að vinna ákveðinn tíma svo þjóðin fái meiri tíma til að eiga þá umræðu sem er nauðsynleg um nýja stjórnarskrá. Ég tel það ekki endilega galla að það taki tíma að ná endanlegu marki. Hvert einasta frumvarp sem ég hef lagt fram og hefur verið samþykkt hefur tekið tíma og við hverja einustu samþykkt hafa þær spurningar vaknað hjá mér hver næstu skref verði. Þannig eigum við að sjálfsögðu að líta á þetta ferli, það er einkenni lýðræðissamfélagsins.

Það er hins vegar annað einkenni þess samfélags að við leitumst við að ná samkomulagi um skipan mála og á því byggjum við auðvitað stjórnskipan ríkja í okkar heimshluta. Það verða aldrei allir sáttir og þess vegna tölum við stundum um skarað samkomulag þar sem eru gerðar málamiðlanir en um leið sættast aðilar á að standa með niðurstöðunni. Það hefur valdið mér vonbrigðum hversu treglega hefur gengið að ná samkomulagi í þinginu um nýja stjórnarskrá. Hér hefur virkilega verið lögð vinna í að eiga samráð og ég fór yfir það. Það samráð hefur ekkert endilega snúist um samráð milli okkar sem sitjum í þessum sal. Það samráð hefur snúist um þjóðfundinn, um þjóðaratkvæðagreiðsluna, um stjórnlagaráðið, það samráð hefur snúist um samtal við þjóðina. Ég hefði talið fyrir fram að það ætti að skila sér inn í sali Alþingis með betri anda. Mig furðar hversu treglega hefur gengið að ná sáttum, hversu langan tíma breytingar hafa tekið og það á raunar ekki bara við um þetta kjörtímabil, sagan frá vorinu 2009 hefur verið nefnd. Auðvitað velti ég vöngum yfir því hvort sú sátt sem íhaldsmenn boða sé fyrst og fremst um óbreytt ástand en ekki sátt um að mjaka málinu áfram. Það hlýtur að valda okkur áhyggjum eftir allt samráð og allt samtal sem hefur átt sér stað úti í samfélaginu ef það nær hreinlega ekki inn fyrir dyr Alþingis.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur talið fullar forsendur til að ljúka heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á þeim grunni sem um ræðir. Við áttum okkur líka á því að máli skiptir að við sem sitjum hér reynum að ná einhverri lendingu um málið. Þess vegna stóðum við að framlagningu tillögu um breytingarákvæðið, þess vegna finnst okkur mikilvægt að líta til annarra mála. Ég nefni þar ekki síst auðlindaákvæðið sem er það ákvæði sem fékk mestan stuðning í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem var haldin í haust. Þar lýsti þjóðin eindregnum vilja sínum til þess að sett yrði ákvæði inn í stjórnarskrá sem tryggði sameign þjóðarinnar á auðlindum. Ég velti því upp, ágætu þingmenn, hvort ekki sé reynandi að fara í þann leiðangur að ná einhverri lendingu um slíkt ákvæði sem þjóðin hefur svo sannarlega talað um, hvort ekki sé reynandi að ná lendingu um það breytingarákvæði þannig að við getum lokið málinu og verið stolt af því. Það er svo að í lýðræðissamfélagi eigum við samtöl og þau stoppa ekki endilega við lok kjörtímabils heldur halda áfram. Það er kannski eitthvað sem hv. þingmenn ættu líka að velta fyrir sér, að hugsa aðeins lengra en til eins kjörtímabils.

Að lokum vil ég segja um tillögu hv. þingmanns: Hv. þingmaður hefur talað talsvert — svo ég vitni í hans eigin orð sem hann notaði áðan — um ógeðisstjórnmál. Tillaga hv. þingmanns er hluti af leiknum, hún er hluti af því leikriti sem íslensk stjórnmál eru orðin. Vandinn er sá að fólk utan þings, íslenska þjóðin hefur hvorki áhuga né skilning á því leikriti. Ég tel atkvæðagreiðslu um vantraust og þingrof sjö vikum fyrir kosningar gott dæmi um það sem fólk vill ekki sjá frá Alþingi Íslendinga.