141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[11:24]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Nú þegar aðeins sjö vikur eru til kosninga erum við fyrst og fremst að taka afstöðu til þess hvort ríkisstjórnin eigi skilið að fá yfirlýsingu um traust frá Alþingi í ljósi þess hvernig hún hefur haldið á málum undanfarin ár. Ég leitaði í gagnasafni Alþingis en fann ekki tillögu um vantraust sem fylgir greinargerð. Slíkar tillögur eru yfirleitt án greinargerðar, eða alltaf fram að þessu. Ástæðan er sú að þegar menn taka afstöðu til vantrauststillögu taka þeir afstöðu til þess hvort ríkisstjórnin eigi skilið traust Alþingis eða ekki. Menn geta tekið afstöðu til þess hver á sinni forsendu.

Við munum leggja til að greidd verði atkvæði um vantrauststillöguna í tvennu lagi, annars vegar fyrri hlutann, um vantraust á ríkisstjórnina, og hins vegar seinni hlutann, um þingrofið. Ég ætla fyrst og fremst að tala hér út frá fyrri hlutanum, tillögu um vantraust á ríkisstjórnina sem hlýtur að snúast um hvort þingmenn telji frammistöðu ríkisstjórnarinnar ásættanlega, hvort hún hafi á þessum fjórum árum unnið sér það inn að þingheimur lýsi trausti á þessa ríkisstjórn.

Að mínu mati er mjög langur vegur þar frá. Þvert á móti er mikilvægt að þingið noti nú tækifærið, í lok þessa kjörtímabils, til að lýsa því yfir að framganga ríkisstjórnarinnar undanfarin fjögur ár sé ekki ásættanleg. Þingmenn geta ekki afsakað sig með því að þeir vilji verja ríkisstjórnina vegna þess að þeir vilji klára tiltekin mál á næstu dögum vegna þess að þeir geta fellt ríkisstjórnina og svo getur þingið tekið völdin. Þingið getur unnið að því að ná hér í gegn góðum málum á næstu dögum. Þegar menn taka afstöðu til fyrri hluta vantrauststillögu hv. þm. Þórs Saaris eru þeir eingöngu að segja skoðun sína á ríkisstjórninni.

Þessi ríkisstjórn tók vissulega við við erfiðar aðstæður í samfélaginu og fólk hafði skilning á því. Þess vegna var það tilbúið að gefa ríkisstjórninni töluvert svigrúm. Við framsóknarmenn töldum í upphafi, strax eftir efnahagshrunið, að það væri svo augljóst hvað gera þyrfti, vandinn væri svo aðkallandi að það hlytu allir að vinna saman að úrlausn hans. Vandamálið sem hins vegar kom svo í ljós við hina nýju ríkisstjórn var að hún leit á efnahagshrunið fyrst og fremst sem pólitískt tækifæri, tækifæri til að ná loksins fram sinni stjórnmálalegu hugmyndafræði. Fyrir vikið var stórkostlegum tækifærum kastað á glæ, tækifærum sem innifalin voru í því ástandi sem þá var uppi, sérstaklega tækifærinu til að fylgja eftir neyðarlögunum með því að huga að hinni hliðinni, þeirri hlið sem neyðarlögin tóku ekki til. Neyðarlögin vörðu eignir en þau fylgdu því ekki eftir með því að ráðast að skuldavandanum með þeim leiðum sem þá voru færar og hefðu ekki kostað ríkissjóð neitt. Því tækifæri var kastað á glæ.

Á þeim tíma sem síðan liðinn er höfum við séð ótal öðrum tækifærum kastað á glæ. Vissulega höfðu margir tapað miklu á efnahagshruninu. Lífeyrissjóðir og þeir sem lagt höfðu sparifé sitt í bankana höfðu tapað miklu, en að langmestu leyti var tapið hjá erlendum áhættufjárfestum. Það var því frumskylda ríkisstjórnarinnar við þær aðstæður að koma í veg fyrir að tapið af efnahagshruninu færðist í meira mæli yfir á íslenskan almenning. En í stað þess að nýta tækifærin sem voru til þess lagði ríkisstjórnin á sig ótrúlega vinnu og baráttu við að færa tapið yfir á íslenskan almenning. Þar bar að sjálfsögðu Icesave-málið hæst þar sem gengið var ótrúlega langt í óeðlilegum og óheiðarlegum vinnubrögðum í stjórnmálum við að ná því markmiði.

Jú, stjórnarandstaðan talaði mikið í Icesave-málinu og þá var kvartað undan málþófi, en hæstv. forsætisráðherra, sem kemur hér upp eftir fjögur ár í ríkisstjórn og reynir að kenna stjórnarandstöðunni um að hún hafi ekki náð meiri árangri vegna þess að stjórnarandstaða hafi talað of mikið, getur þó ekki bent á eitt einasta mál þar sem stjórnarandstaðan hefur, með því að tala, komið í veg fyrir að eitthvað heppnaðist hjá ríkisstjórninni. Eða lítur kannski hæstv. forsætisráðherra svo á að ríkisstjórninni hefði átt að takast að koma Icesave-kröfunum á íslenskan almenning og að stjórnarandstaðan hafi skemmt fyrir því með því að tala of mikið? Eða að ríkisstjórninni hefði átt að takast að koma á því sjávarútvegskerfi sem hæstv. utanríkisráðherra kallaði bílslys og stjórnarandstaðan hafði skemmt fyrir því með því að tala of mikið?

Nú þegar fjögur ár eru liðin af kjörtímabilinu verður hæstv. forsætisráðherra að taka ábyrgð á mistökum þessarar ríkisstjórnar en ekki að reyna að kenna öllum öðrum um. Hið sama á að sjálfsögðu við þegar kemur að umræðu um stjórnarskrána. Hæstv. forsætisráðherra heldur því fram að þar hafi stjórnarandstaðan verið í málþófi. Það er ekki enn búið að tala í eina mínútu um málið eins og það lítur út núna. Það voru nokkrar ræður hér þar sem var farið yfir sögu málsins fyrir nokkrum dögum en eins og málið lítur út núna, eftir þá miklu endurskoðun sem hæstv. forsætisráðherra talaði um að átt hefði sér stað á málinu, þessa miklu yfirferð og breytingar, hefur ekkert verið rætt um tillögu að nýrri stjórnarskrá. Það er erfitt fyrir hæstv. forsætisráðherra að halda því fram að það mál hafi verið stöðvað með málþófi stjórnarandstöðu þegar ekki er byrjað að ræða það.

Það er frumskylda stjórnvalda að verja hag almennings við erfiðar aðstæður og nýta sóknarfærin. Þau sóknarfæri hafa ekki verið nýtt því að þrátt fyrir erfiðleikana hefði margt getað unnið með okkur. Ísland var allt í einu orðið mjög samkeppnishæft um starfsfólk, laun voru hér lægri en annars staðar vegna þess að gjaldmiðillinn hafði fallið. Í stað þess að nýta þann áhuga sem það skapaði á fjárfestingu á Íslandi og nýta þar með kosti sjálfstæðs gjaldmiðils sem vissulega hefur sína galla og í stað þess að nýta kostina sem menn stóðu frammi fyrir vegna þess að íslenskt efnahagslíf var orðið samkeppnishæft, var í raun ráðist gegn öllum raunhæfum hugmyndum um fjárfestingu í atvinnuuppbyggingu og fyrir vikið fluttust störf úr landi, mörg þúsund störf hafa á þessu kjörtímabili flust til annarra landa.

Skuldir ríkissjóðs hafa ekki lækkað á þeim mikla árangurstíma sem hæstv. forsætisráðherra lýsir sem svo. Nei, skuldir ríkissjóðs eru miklu hærri nú við lok þessa kjörtímabils en strax eftir efnahagshrunið. Þær hafa haldið áfram að hækka ár frá ári og iðulega margfalt meira en haldið var fram í fjárlögum. Og nú síðast leyfir ríkisstjórnin sér að státa sig af því að hún hafi náð hallalausum fjárlögum fyrir lok kjörtímabilsins, hallinn væri ekki nema um 3 milljarðar. En allir sáu að þetta var einfaldlega ekki satt vegna þess að menn slepptu því að geta um ýmsa útgjaldaliði. Þeim útgjaldaliðum sem vantaði inn í þau fjárlög er alltaf að fjölga og mun líklega fjölga enn á þeim dögum sem eftir eru af þinginu. Síðustu fjárlög voru þannig röng, eins og allt þetta kjörtímabil. Þau voru í raun fölsuð vegna þess að menn vissu betur. Verið er að fela vandann, verið er að fela hallann á rekstri ríkissjóðs og það eru að sjálfsögðu ekki ásættanleg vinnubrögð þegar menn takast á við vandamál með því að reyna að fela það og koma þannig í veg fyrir að tekið sé á því með tiltækum ráðum, þeim ráðum sem nýta þarf.

Hæstv. forsætisráðherra talaði líka um hagvöxt. Það er alltaf svolítið sérkennilegt að hlusta á hæstv. ráðherra í þessari ríkisstjórn státa sig af því að hér sé þó hagvöxtur hærri en í evruríkjunum, hér sé staða efnahagsmála þó ekki jafnslæm og í evruríkjunum (Gripið fram í.) á sama tíma og þetta sama fólk beitir sér fyrir því að Ísland taki upp evruna og gangi í Evrópusambandið. Sá litli hagvöxtur sem þó hefur náðst er til kominn af aðstæðum í náttúrunni vegna þess að fiskur, ekki hvað síst makríll, hefur haldið sig meira í íslenskri lögsögu en áður og vegna þess að fall gjaldmiðilsins hefur ýtt undir útflutning. Hvað hefur ríkisstjórnin gert til að fjölga störfum og auka hagvöxt? (Gripið fram í: Ekkert.) Ekki neitt, enda sjáum við það á því að fjárfesting hefur verið í sögulegu lágmarki allt þetta kjörtímabil og fellur enn nú á síðasta ári. Endurmat á stöðu síðasta árs leiðir ekki bara í ljós að hallinn verði miklu meiri en gert var ráð fyrir í rekstri ríkissjóðs, leiðir ekki bara í ljós að hagvöxturinn verði helmingi minni en gert var ráð fyrir í forsendum, heldur einnig að fjárfesting fari enn minnkandi. Það er afleiðing af stefnu þessarar ríkisstjórnar.

Jafnvel undirstöðuatvinnugreinar sem áttu að draga vagninn út úr efnahagsvandanum hafa ekki farið varhluta af þeirri nálgun ríkisstjórnarinnar að hugsa fyrst og fremst um efnahagshrunið sem pólitískt tækifæri.

Sjávarútvegur, sem þó hefur skapað heilmikil verðmæti og í raun haldið efnahagslífi landsins á floti, hefur búið við algjöra óvissu allt þetta kjörtímabil. Það hefur ekki hvað síst bitnað á nýsköpunargreinunum, enda hefur mestur árangur náðst í nýsköpun á Íslandi í fyrirtækjum sem væru tengd undirstöðuatvinnugreinunum. Þessi fyrirtæki, nýsköpunarfyrirtækin, nýju fyrirtækin og nýju störfin hafa liðið fyrir óvissuna sem ríkisstjórnin hefur skapað. Svo leyfa hæstv. ráðherrar og nýkjörinn formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sér að tala eins og þessi ríkisstjórn hafi fundið upp áherslu á nýsköpun, að áður hafi allir bara viljað álver. Það er tóm vitleysa (Gripið fram í.) því að áhersla fyrri ríkisstjórna og sérstaklega að sjálfsögðu framsóknarmanna hefur lengi verið á mikilvægi nýsköpunar. Nýsköpun verður þó að byggja á traustum grunnstoðum og á því byggja menn ekki ef þeir eru á sama tíma að grafa undan þeim grunnstoðum.

Virðulegur forseti. Þó að ekki sé langt eftir af kjörtímabilinu er vel við hæfi að Alþingi lýsi skoðun sinni á ríkisstjórninni núna við lok kjörtímabils. Ég ítreka að í þeirri atkvæðagreiðslu sem fram fer í dag, um fyrri hluta þingsályktunartillögu hv. þm. Þórs Saaris, eru menn eingöngu að taka afstöðu til þess hvort þeir geti eftir þessi fjögur ár lýst yfir trausti á þessa ríkisstjórn eða hugsanlega einhverjir geti ekki gert það upp við sig, viti ekki hvort þeir treysti þessari ríkisstjórn eða ekki.

Flóknara er það ekki. Ætla menn að lýsa yfir trausti á ríkisstjórn sem haldið hefur á málum eins og ég hef lýst hér, kastað ótal tækifærum á glæ, beitt sér af alefli við það að reyna að koma skuldum gjaldþrota einkafyrirtækis yfir á íslenskan almenning, ríkisstjórn sem hefur hvað eftir annað svikið samninga, jafnvel skriflega samninga, ekki bara við pólitíska andstæðinga heldur við Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið og fjölmarga aðra, fyrirtækin sem voru látin borga skatta mörg ár fram í tímann gegn loforði um að staðið yrði við samninga? Jafnvel slíkir samningar voru sviknir.

Ætlar Alþingi eftir fjögur ár af slíkum vinnubrögðum að lýsa yfir trausti á þessa ríkisstjórn og þar með þessi vinnubrögð eða ætla menn núna, í aðdraganda kosninga, að lýsa því yfir að vinnubrögð eins og við höfum horft upp á undanfarin fjögur ár séu óásættanleg?