141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[12:58]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við tillögu um vantraust á ríkisstjórn Íslands vegna framgangs stjórnarskrármálsins sem stærstu stjórnarandstöðuflokkarnir ætla að drepa með málþófi og hindra þannig að Alþingi fái að ljúka málinu. Vantraustið hefði átt að vera á stjórnarandstöðuna.

Fyrr í umræðunni var hlegið að hv. þingmanni og formanni Sjálfstæðisflokksins þegar hann sagðist vilja breytingar á stjórnarskránni. Það kom mér ekki á óvart vegna þess að sjálfur var ég hér í forsetastóli árið 2009 þegar gerðar voru tilraunir til þess að verja tillögur Framsóknarflokksins sem þá barðist fyrir því að fá stjórnlagaráð samþykkt, tillögu sem minnihlutastjórnin hafði samþykkt að bera fram með Framsóknarflokknum, stjórnlagaráð þar sem Framsókn barðist fyrir að hér yrðu 63 fulltrúar sem mundu starfa í heilt ár að því að undirbúa nýja stjórnarskrá.

Þá fluttu þingmenn Sjálfstæðisflokksins alls 600–700 ræður um fundarstjórn forseta til að drepa málið. Þeim tókst það því að tveim, þrem dögum fyrir kosningar gáfust menn upp og urðu að fara út í kosningar án þess að ljúka breytingum á stjórnarskránni. Þar, eins og gjarnan áður, kom Sjálfstæðisflokkurinn með þá stefnu: Ef við fáum ekki að ráða verður engin sátt.

Síðan þá hefur Framsókn gagnrýnt meðal annars kostnaðinn við stjórnlagaráðið, sem þó er brot af því sem þeir lögðu sjálfir til árið 2009. Framsókn fylkir sér nú í lið með Sjálfstæðisflokki í sérhagsmunagæslunni, til dæmis gegn nýju og skýru auðlindaákvæði í stjórnarskrá og hunsar þannig vilja mikils meiri hluta þjóðarinnar. Ef okkur tekst ekki að koma stjórnarskrármálinu í höfn er það ekki ríkisstjórninni að kenna. En við þurfum að hugleiða eitt: Á íslensk þjóð að sætta sig við að málþófi verði beitt til að stöðva að vilji þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu nái fram að ganga? Ég tel að við eigum að gera allt til að ljúka því sem við lögðum af stað með til að breyta stjórnarskránni og það verði þá á ábyrgð annarra en þessarar ríkisstjórnar ef það tekst ekki.

Ég held að mikilvægt sé þegar við ræðum vantraust á ríkisstjórnina að líta aðeins til baka og skoða hver aðkoman var hjá okkur árið 2009. Íslenska bankakerfið hrundi, krónan féll, var í frjálsu falli, verðlag hækkaði, kaupmátturinn rýrnaði um tugi prósenta, verðbólgan æddi af stað og át upp eignir fólks og kaupmátt og við fengum bullandi atvinnuleysi. Markviss stefna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var um langt skeið að gera Ísland meðal annars að fjármálamiðstöð heimsins, þeir voru með lækkun skatta á fyrirtæki og einstaklinga í bullandi þenslu vegna stórframkvæmda, auknar lánveitingar til húsnæðiskaupa með 90% lánum, veikt eftirlitskerfi og lagaumhverfi sem tók mið af hagsmunum fjármagnseigenda og gleymdi neytendum. Allt leiddi þetta til hrunsins um leið og frjálshyggjuhugmyndir alþjóðasamfélagsins hrundu. Engin innstæða reyndist fyrir þeirri þenslu og þeim fjárfestingum sem farið var í hvort sem var fyrir heimili eða fyrirtæki. Svokallað góðæri reyndist froða, bóluhagkerfið hafði hrunið. Og í boði hverra var allt þetta?

Er íslenska þjóðin tilbúin að rétta sömu aðilum stjórnartaumana að nýju, leyfa þeim að þakka pent fyrir tiltekt núverandi ríkisstjórnar og segja: Nú get ég? Eigum við enn á ný að leiða fram sérhagsmunaaöflin í samfélaginu gegn almannahagsmununum? Ég ætla að vona að kjósendur sjái í gegnum þessa leiki og þau loforð sem þegar er farið að gefa núna fyrir kosningarnar af þeim sömu gömlu flokkum.

Ég spurði: Hvernig var staðan? Skuldir fólks vegna húsnæðis jukust úr 700 þús. milljónum í 1.400 þús. milljónir á fjórum árum fyrir hrun einmitt vegna 90% húsnæðislánanna. Yfirdráttur heimila var 80–90 þús. milljónir á þeim tíma. Hugmyndafræðin „látum peningana vinna og skuldsetjum okkur“ var þá aðalslagorðið frá hægri flokkunum. 50% hækkun á húsnæðisverði árin 2004–2007, sem að mörgu leyti var skuldsett, var veruleiki. Það endaði með því að ríkissjóður var rekinn eftir hrunið með gríðarlegum halla, yfir 200 þús. milljónum. Þetta er það verkefni sem við höfum orðið að glíma við og leysa.

Ef það hefði nú verið þannig að þetta góðæri hefði leitt til þess að hér hefði verið búið almennilega að heilbrigðiskerfinu, öldruðum, öryrkjum og húsnæðiskerfinu í heild, þá hefði þetta kannski verið ásættanlegt, en svo var alls ekki. Hvernig stóð á því til dæmis að Landspítalinn var rekinn með bullandi halla fyrir hrun þannig að hann var gerður tæknilega gjaldþrota?

Verkefni okkar hefur verið að vinna að endurreisn við erfiðar aðstæður, þurft að taka margar og erfiðar ákvarðanir og vinna úr erfiðri stöðu. Þar höfum við haft skýra forgangsröðun þar sem við höfum reynt að verja velferðarmálin þrátt fyrir að við höfum orðið að skera niður. Þar er margt til að taka og við höfum þegar komið fram með nýjar lausir eins og í almannatryggingamálunum þar sem fyrir liggur róttæk breyting inn til framtíðar þar sem dreginn er til dæmis til baka sá niðurskurður sem hefur átt sér stað á kjörum lífeyrisþega. Við höfum komið fram með nýjar tillögur í húsnæðismálum, til dæmis um leigufélag, að tryggja jafnræði á milli ólíkra íbúðaforma, við höfum gert tillögu um óverðtryggð lán hjá Íbúðalánasjóði, en því miður er Íbúðalánasjóður illa settur eftir stjórnartíð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Við höfum lagt áherslu á málefni barna með hækkun barnabóta, við erum að endurheimta fæðingarorlofið, sem því miður varð að skerðast á þeim tíma. Við erum að gera tillögur um að koma tannlækningum barna hér á dagskrá með betri kjörum, mál sem hefur verið í 20 ár í ólestri hjá áðurnefndum flokkum.

Við notuðum aðstöðuna, fórum í að fækka þvinguðum sambýlum og hjúkrunarheimilum, gerðum samning upp á um 10 þús. milljónir við að eyða tvíbýlum eða sambýlum og verkefni okkar er áfram að vinna að því að auka hjúkrunarrými og bæta þar við í öldrunarmálunum þegar betur fer að ára.

Heilbrigðismálin hafa orðið að sæta niðurskurði eins og margt annað þó að þau hafi verið varin að hluta, en nú erum við farin að gefa til baka, hætt niðurskurði, höfum aukið tækjaframlög, styrkt heilbrigðisstéttirnar með jafnlaunaátaki og þar eigum við líka stórt verkefni fram undan sem er að byggja nýjan spítala til að tryggja öruggt umhverfi til framtíðar litið.

Ég gæti haldið svona lengi áfram. Atvinnumálin og þau verkefni sem við höfum unnið í greiðslu- og skuldavandanum, við munum fljótlega sjá ítarlega skýrslu um þau verk sem þar hafa verið unnin og hvernig þróunin hefur orðið í þeim málum. Ég treysti á að ríkisstjórnin fái að ljúka verkum sínum og að þjóðin fái að átta sig á því að hvers konar borði við komum árið 2009.