141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[13:14]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Menn gerast nokkuð andstuttir hér í ræðustólnum enda mikið í húfi. Menn vita að nú nálgast senn kosningar. Við greiðum hins vegar atkvæði um tillögu sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina.

Alþingi lýsir þeim vilja sínum að þing verði rofið og efnt til almennra þingkosninga. Fram að kjördegi sitji ríkisstjórn skipuð fulltrúum allra flokka á þingi.“

Þetta er tillagan. Síðan kemur greinargerð. Þar eru færð rök fyrir þessari tillögu. Þar segir á þá leið að ríkisstjórnin hafi ekki staðið sig í því að koma fram breytingum á stjórnarskránni. Síðan er ástæðan fyrir því að skipa eigi stjórn fulltrúa allra flokka á Alþingi skýrð með eftirfarandi hætti, með leyfi forseta:

„Með því eru meiri líkur á að sátt náist um mál sem varða hagsmuni þjóðarinnar.“

Hvaða mál skyldu það vera? Kvótakerfið? Skattstefnan? Stefna í virkjunarmálum? Orkustefna? Stefna varðandi náttúruvernd? Stefna í velferðarmálum? Eða sátt um þau mál sem við deilum um hér? Og um hvað er deilt hér?

Að mínum dómi er það einkum tvennt sem deilt er um. Í fyrsta lagi er deilt um beint lýðræði og í öðru lagi er deilt um auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar. Þetta eru stóru deilumálin. Í sambandi við stjórnarskrármálið og þá tillögu sem hér liggur fyrir má vissulega gagnrýna ríkisstjórnina fyrir eitt, að hafa ekki fyrir löngu tekið þessi tvö stóru mál út fyrir sviga og reynt að leiða þau til lykta. Það mundi aldrei gerast með samkomulagi við Sjálfstæðisflokkinn að fá ákvæði í stjórnarskrá sem tryggir þjóðareign á auðlindum. (REÁ: Rangt.) Það er rétt. (REÁ: Rangt.)

Ég hef reynslu af því í þessum þingsal að taka þátt í umræðu um nákvæmlega þetta mál við fulltrúa Sjálfstæðisflokksins á undanförnum árum. Sannast sagna hélt ég að Framsóknarflokkurinn hefði gengið í endurnýjun lífdaga, hann hefur ekki reynt svo lítið að þvo af sér spillingarárin meðan hann sat í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum á síðari hluta tíunda áratugarins og fyrstu árum þessarar aldar. En svo sýndi hann sitt rétta andlit hér fyrir nokkrum dögum og minnti okkur á og kjósendur flokksins að enn þarf hann að skrúbba sig til að hreinsa sig af þessum tíma.

Fulltrúar Framsóknarflokksins komu hér í pontu og sögðu að kvótinn væri afleiddur eignarréttur, varinn samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þetta sögðu fulltrúar Framsóknarflokksins. Þetta eru stóru deilumálin sem tengjast stjórnarskrárbreytingunum núna. En Sjálfstæðisflokkurinn minnti okkur á annað, að atkvæðagreiðslan á eftir snerist um annað og meira, hún snerist um komandi þingkosningar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þegar gefið tóninn, hann gerði það í aðdraganda landsfundar síns og einnig á landsfundinum sjálfum, um að nú stæði til að einkavæða, að selja Landsvirkjun. Hann minnti okkur líka á gamla stefnu sem komin er upp á vinnsluborðið um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Ég er með ályktunina hér:

„Nýta á kosti fjölbreyttra rekstrarforma í heilbrigðiskerfinu.“

Þetta er gamalkunnugt dulmál, sem við öll þekkjum, um að nú eigi að einkavæða í heilbrigðiskerfinu. Ég hef oft sagt að við sem erum hér í þessum sal viljum öll efla velferðarþjónustuna á Íslandi og líka heilbrigðiskerfið. Við deilum hins vegar um hvernig fjármagna eigi þetta kerfi. Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta en auka heilbrigðisþjónustuna. Hvað þýðir það? Það þýðir að láta á sjúklingana borga. Í stað þess að við greiðum til heilbrigðisþjónustunnar meðan við erum heilbrigð og aflögufær á að bíða þangað til við verðum veik. Þá á að rukka okkur við innganginn á Landspítalanum með sjúklingasköttum.

Það er gott að vera minnt á það að þessi atkvæðagreiðsla hér á eftir snýst um það hvers konar þjóðfélag við ætlum að reisa á Íslandi, þjóðfélag mismununar og misréttis, þjóðfélagið sem Sjálfstæðisflokkurinn boðar, eða það þjóðfélag sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum staðráðin í að berjast fyrir á næstu fjórum árum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)