141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

útboð á sjúkraflugi.

[16:27]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það kann að vera orðhengilsháttur að ég geri athugasemd við það orðalag að ég hafi ætlað að tryggja að hægt yrði að bjóða í. Ég sagði að við mundum kanna hvort ekki væri heimilt að setja frávikstilboð. Ég taldi raunar að það gilti almennt um útboð að fyrirtæki gætu sent inn frávikstilboð og óskað eftir því að vera þátttakendur, hvað viðkomandi flugfélag gerði ekki. Aftur á móti voru sendar inn athugasemdir þar sem beðið var um breytingar á útboðinu. Sú beiðni fór formlega leið og var hafnað af útboðsaðilum með tilliti til öryggisatriða. Þar skorti mig alla þekkingu eða vilja til þess að fara gegn þeim sérfræðingum sem þar komu að verki. Þess vegna var þetta boðið út með þeim hætti sem lagt var upp með af þeim aðilum sem best kunna til. Ég get fullyrt að það var ekki gert til að tryggja einhvern einn aðila eða útiloka einhverja aðra heldur fyrst og fremst til að tryggja að flugið yrði viðunandi og það yrði áfram gert út frá Akureyri eins og lagt (Forseti hringir.) var upp með í byrjun.