141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

vörugjald og tollalög.

619. mál
[16:49]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því að hv. þm. Skúla Helgasyni þótti nokkuð langur sá tími sem fór í að ræða það mál sem afgreitt var í atkvæðagreiðslu hér á undan. Það er ágætt að hafa það í huga þegar hv. þingmenn kvarta yfir umræðu hér eða finna að eða gera athugasemdir að málið sem við erum að fást við núna er akkúrat dæmi um það þegar þingið flýtir sér um of, gerir mistök.

Núna þurfum við að leiðrétta mistök og reyndar eru allir sammála um að málið er arfavitlaust frá grunni. Ég yrði ekki hissa þótt þetta væru ekki síðustu leiðréttingarnar sem við þurfum að gera á málinu áður en við þurfum að henda því út í hafsauga, vonandi, síðar meir. Við mættum læra af því. Nú er svo komið að búið er að ákveða að setja á kvöldfund. Það er langur listi mála sem ríkisstjórnin hefur lýst yfir að hún vilji koma í gegn á þeim örfáu dögum sem eftir eru af þessum þingi. Hver skyldi nú verða villuhættan af því öllu saman, öllu bröltinu og því að ríkisstjórnin getur ekki tekið ákvörðun um (Forseti hringir.) hvaða mál hún vill setja í forgang þannig að það sé gert með raunhæfum hætti, þannig að klára megi málin (Forseti hringir.) án þess að þurfa síðar að taka málið aftur inn til að lagfæra villur sem stjórnarmeirihlutinn (Forseti hringir.) svokallaði ber ábyrgð á? (Gripið fram í: Heyr, heyr …)