141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

framkvæmdaáætlun í barnavernd til 2014.

458. mál
[16:58]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir að þessi áætlun fari hér í gegn. Menn hafa gert athugasemdir um að áætlunin hefði átt að koma fram fyrr, ég leyni því ekki. Í öðru lagi þarf að skerpa á því í þinginu að kostnaðarmat skuli liggja fyrir við slíkar framkvæmdaáætlanir, en það er alls ekki áskilið. Það er svipað og að við fáum hér í gegn barnasáttmála sem samþykktur er með töluvert þungum kvöðum í þinginu. Ég fagna því líka en það þýðir að ríkisstjórnin sem framkvæmdarvald verður að grípa inn í og framkvæma það sem þar er sett fram sem verkefni frá þinginu. Hér eru tvö verkefni nefnd, að við þurfum að styrkja Barnahús og að við þurfum að vinna að því að koma hér á stofnun sem uppfyllir barnasáttmálann. Það verður okkur hvatning til að gera betur í mikilvægum málaflokkum, en ég þakka fyrir að framkvæmdaáætlunin skuli fara í gegn.