141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[11:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er nú ekki sammála hv. þingmanni eða hef ekki sömu áhyggjur, við skulum orða það frekar þannig, og hv. þingmaður og Blaðamannafélagið af hlut Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Ríkisútvarpið er ekki með auglýsingar á vef sínum í dag og ef menn vísa til þess að ljósvakamiðlarnir séu að keppa við vefmiðlana, og það má örugglega færa fyrir því einhver rök, held ég að það sé líka mikilvægt að sá vettvangur sem er fyrir auglýsingar í ljósvakamiðlum, í sjónvarpsauglýsingum og öðru slíku verði ekki einskorðaður við einn eða tvo aðila á markaði, hvort sem þeir eru stórir eða litlir. Þar er ég að sjálfsögðu að vísa til 365 miðla og Skjásins.

Ég held því að ekki sé rétt að takmarka möguleika Ríkisútvarpsins til að vera á þeim markaði, í það minnsta þarf að fara mjög varlega í það, ég ætla að leyfa mér að orða það þannig. Það kann að vera að málamiðlun sú sem kemur fram í þessu frumvarpi sé eitthvað sem menn verða að sættast á, því að það er allt í lagi að uppi séu ólík sjónarmið um stærð og hlutverk ríkisrekins miðils, sem þetta fyrirtæki er að sjálfsögðu, á auglýsingamarkaði.

Ég kaupi hins vegar ekki endilega þau rök að hverfi Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði muni koma hér upp aðrir fjölmiðlar eða miðlar. Mér finnst einhvern veginn líklegra, í það minnsta ef samkeppnissjónarmið raskast ekki eða samkeppnismál, að þeir sem fyrir eru á vettvangi muni kaupa upp hina. Ég held að það hafi verið reynslan fram að þessu.

Varðandi innlenda dagskrárefnið og tölur um það sakna ég þess að sjá þær ekki í þeim gögnum sem við erum með hér, kannski liggja þau einhvers staðar annars staðar, og hversu háar fjárhæðir þetta eru, hvort hluturinn nemi 10% eða 20%. Það skiptir kannski ekki öllu máli en það skiptir máli að menn marki sér stefnu í þessu, (Forseti hringir.) hver svo sem talan verður á endanum.