141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

lengd þingfundar.

[13:34]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ljóst er að þingsköp heimila að hér verði fundað til miðnættis þannig að sú heimild sem hér er verið að óska eftir er til þess að fara fram yfir miðnætti. Það er auðvitað sérkennilegt í ljósi þess að ekki hefur komið fram nein áætlun um það hvernig haga beri þingstörfum næstu daga. Enn þá liggja fyrir hrúgur af málum sem hæstv. ríkisstjórn hefur áhuga á að koma í gegn en engin forgangsröðun, eins og bent hefur verið á. Ekki er búið að flokka með neinum hætti þau mál sem mikilvægt eða nauðsynlegt er að verði kláruð áður en þingið fer heim. Menn hafa ekki áttað sig á því hvaða mál það eru sem þarf að klára, út af dagsetningum eða tímasetningum eða annarra brýnna aðstæðna.

Ég minni á að nýtt þing verður kjörið 27. apríl sem hugsanlega verður allt öðruvísi samsett en þetta. Ættu menn ekki að einbeita sér að því, núna á lokadögum þessa þings, að klára þau mál sem eru raunverulega mikilvæg, (Forseti hringir.) skipta raunverulega máli, eru raunverulega þess eðlis að ætla má að (Forseti hringir.) það verði að ljúka þeim áður en nýtt þing kemur saman?