141. löggjafarþing — 100. fundur,  13. mars 2013.

framgangur þingsályktunar um bætta heilbrigðisþjónustu og heilbrigði ungs fólks.

602. mál
[11:54]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna. Þetta mál er eitt af þeim góðu og jákvæðu málum sem nefndir þingsins hafa sammælst um. Þær hafa fylgt eftir vinnu sem þegar hefur verið unnin. Mig langar til að brýna hæstv. ráðherra til dáða í þessum málum. Ég veit að verið er að gera ákveðna hluti en við þurfum að horfa sérstaklega á þennan hóp og vinna mjög markvisst að málum hans, eins og nefndin komst að niðurstöðu um.

Það eru örfá atriði sem mér finnst skipta máli. Við verðum að skoða skólaheilsugæsluna í framhaldsskólum. Við verðum að skoða kynheilbrigði ungs fólks og ef til vill þurfum við að leggja sérstaka áherslu á andlega heilsu ungs fólks þar sem kvíði og þunglyndi er mikið vandamál meðal þessa hóps. Síðan langar mig til að minna á unglingamóttökuna sem við sameinuðumst um að eðlilegt væri að hafa á einum stað en með ráðgjöf úti um landið (Forseti hringir.) og ekki síst að við þurfum að hafa unga fólkið sjálft með í ráðum.