141. löggjafarþing — 101. fundur,  13. mars 2013.

gjaldeyrismál.

669. mál
[14:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Forseti. Eins og ég kom inn á í tölu minni er um að ræða mörg sambærileg ákvæði. Jafnframt var tekið tillit til þeirra athugasemda og þeirrar umræðu sem átti sér stað í hv. efnahags- og viðskiptanefnd þegar það frumvarp var til umfjöllunar, síðan hafa orðið örlitlar viðbætur. Við höfum átt ágætissamráð við flokka og forustumenn þeirra hér á þingi um þetta mál, við sýndum það fyrir þó nokkru síðan til að reyna að tryggja að hér yrði góð samstaða um það og ég tel að svo sé.

Breyting er lögð til í i-lið frumvarpsins, þ.e. að 3. töluliður 3. mgr. falli brott. Hún hefur valdið töluverðum titringi á hlutabréfamarkaði í dag og því tel ég rétt að skýra hana aðeins. Seðlabankinn hefur haft full tök á að setja reglur um fjárfestingarheimildir sem varða krónur í eigu erlendra aðila, það eru svokallaðar aflandskrónur, stundum kallaðar Vostro eða 27 krónur, og á meðan slíkar reglur hafa ekki verið settar gilda eftir sem áður sömu heimildir um þær. Þessi tök voru meðal annars skilgreind betur með frumvarpi um gjaldeyrismál sem varð að lögum núna um helgina og þetta er stóri stabbinn af krónunum í kerfinu.

Breytingin sem lögð er til varðar fjárfestingarheimildir fyrir aðrar krónur í eigu erlendra aðila, svokallaðar álandskrónur eða 26 krónur. Magn þeirra er mun minna, líklega 5–10 milljarðar kr. Meginbreytingin sem verður með því að fella þetta ákvæði niður, sem tengir fjárfestingarheimildina við veðlánareglur, er að nú falla heimildirnar undir reglur Seðlabanka og hann hefur heimild til að taka úr sambandi tenginguna við veðlánareglur. Slík tenging er að mörgu leyti óheppileg enda leiðir hún til þess að breytingar á veðlánareglum af peningapólitískum ástæðum geta haft áhrif á fjárfestingarmöguleika erlendra aðila. Á meðan Seðlabankinn er ekki að nýta heimild sína til að breyta þessu þá gilda sömu reglur og áður.

Ég vildi koma þessu hér á framfæri af því að hv. þingmaður nefndi hvort það hefðu orðið einhverjar breytingar á málinu síðan síðast, þetta er ein af þeim.