141. löggjafarþing — 101. fundur,  13. mars 2013.

gjaldeyrismál.

669. mál
[14:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að tefja þetta mál mikið en fyrst verð ég að gera athugasemd við að þessu frumvarpi var dreift á laugardaginn var. Maður er hættur að tala um einhverja aðra mánuði, heldur bara laugardaginn og við fáum mjög lítinn tíma. Svo skilst mér, frú forseti, að samkvæmt starfsáætlun þingsins verði þingfundum lokið á föstudaginn þannig að maður sér ekki alveg hvernig hv. efnahags- og viðskiptanefnd, sem ég sit nú í, getur fjallað um þetta með einhverjum vitrænum hætti. Þetta er mjög stórt mál og mér sýnist margt í því vera jákvætt, það er verið að auka heimildir. Annað þarf að skoða vel eins og til dæmis afmörkun við þær krónur sem falla ekki undir það og svo framvegis. Nefndin þarf náttúrlega að vera mjög viss í sinni sök áður en hún leggur blessun sína yfir þetta frumvarp.

Þess vegna er ég dálítið uggandi yfir því. Það er komið heilt ár síðan frumvarpið var lagt fyrir í fyrra og þáverandi nefnd skilaði áliti og breytingartillögum og lá yfir frumvarpinu, þannig að kannski þarf ekki eins mikið að liggja yfir því núna. En ég geri sem sagt töluverðar athugasemdir við hvað þetta kemur seint fram, fyrir utan að það þarf náttúrlega að ræða einstök efnisatriði. Ég ætla ekki að gera það núna, ráðherrann fór mjög ítarlega yfir þau í ræðu sinni, en ég mun gera það sem ég mögulega get í efnahags- og viðskiptanefnd til þess að flýta þessu máli. Ég geri ráð fyrir því að ráðherra leggi áherslu á að frumvarpið verði samþykkt núna fyrir vorið og fyrir kosningar og þá er bara spurning hvort það sé gerlegt.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra til þess að tefja ekki málið enn frekar og mun sem sagt vinna hart að þessu í nefndinni.