141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[17:15]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru réttmætar spurningar hjá hv. þingmanni. Bara svo ég svari þeirri síðustu fyrst var þetta mjög gagnrýnt í fjárlagaumræðunni fyrir árið 2013. Hv. þingmaður bendir réttilega á að í frumvarpinu fyrir árið 2013 er gert ráð fyrir tæpum 600 millj. kr. til Náttúrufræðistofnunar, en hvað skyldu nú allar náttúrustofurnar fá, allar saman um allt land? Þær fá 142 milljónir.

Svo er nokkuð merkilegt með þá hækkun sem hefur orðið hvernig hún er rökstudd í frumvarpi til fjárlaga. Þegar menn hækka framlögin til Náttúrufræðistofnunar er skýringartexti með auknum útgjöldum. Ég er ekki að gera lítið úr þessari stofnun og ég veit að hv. þingmaður er ekkert að því heldur, við erum bara að setja þetta í samhengi og í það umhverfi sem við erum að fjalla um. Skýringartextinn er svona, með leyfi forseta:

„… er að kortleggja vistkerfi og fuglalíf á Íslandi með það fyrir augum að auðkenna þau svæði sem þarfnast verndunar. Hluti fjárstuðningsins fer í að fjölga starfsmönnum stofnunarinnar.“

Það blasir einhvern veginn við mér að það væri eðlilegast að gera þetta á náttúrustofunum en ekki Náttúrufræðistofnun. Ég hugsa að það sé styttra ferðalag frá náttúrustofunum víðs vegar um landið til að kortleggja fuglalíf á landinu en af höfuðborgarsvæðinu. Þá er spurningin: Hvaða áhrif hefur þetta? Hefur þetta þau áhrif að við eyðum mjög miklum peningum og dagpeningum í starfsmenn sem keyra um vegina? Er ef til vill skynsamlegra að efla starf náttúrustofanna? Ég er alveg klárlega þeirrar skoðunar. Ég hef ekkert á móti Náttúrufræðistofnun, en á sama tíma og verið er að skera niður er verið að auka þarna í. Þetta er ekkert réttlæti í þessu.