141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[17:17]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að halda áfram með þessa umræðu af því að hv. þingmaður á sæti í fjárlaganefnd. Mér er það minnisstætt að strax eftir efnahagshrunið áttum við hv. þingmaður báðir sæti í fjárlaganefnd. Ég man ekki hvort það var milli 1. og 2. umr. eða 2. og 3. umr. sem tillaga kom frá ríkisstjórninni um aukafjárveitingu til Náttúrufræðistofnunar til að bregðast við samdrætti í sértekjum vegna efnahagshrunsins. Það henti allar stofnanir sem voru með sértekjur eftir hrun að missa þær. Þá kom inn föst aukafjárveiting til Náttúrufræðistofnunar sem ég held að hafi haldist síðan í fjárlögunum.

Náttúrufræðistofnun tekur meðal annars að sér að sýna gripi og annast fræðslu sem ætti að vera á hendi Náttúruminjasafns Íslands. Náttúrufræðistofnun hefur tekið að sér stjórnsýsluhlutverk sem ætti að vera á hendi Umhverfisstofnunar. Náttúrufræðistofnun tekur að sér, eins og hv. þingmaður bendir á, verkefni sem ættu heima hjá náttúrustofunum og snúa að fuglatalningu, vöktun o.fl. Þá veltir maður óneitanlega fyrir sér í ljósi gagnrýninnar á þetta frumvarp hvort það kunni að vera að það frumvarp sem við erum að ræða, líka í ljósi þess hvernig fjárveitingarnar hafa aukist, sé skrifað að of miklu leyti til þess að efla Náttúrufræðistofnun Íslands en kannski ekki að ná markmiðum frumvarpsins um náttúruvernd eða að ná markmiðum frumvarpsins að öðru leyti.

Ég verð að viðurkenna að fyrst þegar ég leit á þetta mál og fór að skoða umsagnir kom það óneitanlega upp í hugann. Þegar maður skoðar síðan þróun fjárveitinga undanfarinna ára fer maður að velta fyrir sér hvort það fari ekki að verða skynsamlegt að skoða eitthvað starfsemi þessarar stofnunar hvað varðar almenn verkefni (Forseti hringir.) og verkaskiptingu. Mig langaði að spyrja hv. þingmann um skoðun hans á því máli.