141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[18:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það þarf alltaf að rökstyðja mjög vel að mínu viti boð og bönn, hvort sem það varðar þetta tiltekna atriði sem hv. þingmaður nefndi hér eða annað, þ.e. hvort banna eigi umferð gangandi um ákveðin landsvæði, hólf eða hvernig það er skilgreint. Það er vissulega vandmeðfarið. Það kann að vera að í einhverjum tilvikum sé slíkt nauðsynlegt eða hægt en almennt eiga stjórnvöld ekki að gera slíkt, almennt eiga þau að reyna að hafa frelsið sem mest, að sjálfsögðu. Þó ber að virða friðhelgi einkalífsins, að mínu viti, þeirra sem eiga land eða hafa umráð. Að sjálfsögðu þarf að virða það.

Sjálfsagt hafa margir lent í aðstæðum þar sem eitthvert ónæði verður. Það er til dæmis ekkert svakalega gaman að vera að veiða og einhver stingur sér í ána af hinum bakkanum til að baða sig. Það geta orðið einhver átök þar um, held ég, en ég verð að viðurkenna, af því að hv. þingmaður talaði um „harðlínu“ í þessu öllu saman, að mér finnst andinn í frumvarpinu og þeim breytingum sem gerðar eru nokkuð harður. Það er farið nokkuð fast fram og settar býsna miklar (Forseti hringir.) takmarkanir að mínu viti við ýmsa hluti sem við þurfum (Forseti hringir.) að skoða betur.