141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[19:25]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Alveg eins og ég sagði, þessi texti hljómaði vel og var fínn texti að lesa en vegna andans í frumvarpinu, ákvarðana hæstv. umhverfisráðherra á yfirstandandi kjörtímabili, reglugerðarheimildarinnar sem hér er vísað til og þeirra dæma sem ég tók af því ástandi sem hefur verið á Íslandi síðustu árin, hvernig menn hafa látið gagnvart fólki sem ferðast um Ísland og hefur gert það um áratugi, verða menn hræddir, m.a.s. við svona fínan texta. Ég var einmitt að segja það, textinn er fínn en menn óttast afleiðingar vegna boða- og banns-andans sem er í frumvarpinu, reglugerðarheimilda til ráðherra og þess valds sem ráðherra hefur sannarlega beitt á yfirstandandi kjörtímabili og hefur meðal annars leitt til þess að einstakir landverðir hafa hagað sér með þeim hætti sem ég lýsti áðan. Þetta var sönn saga, ég var ekki að búa hana til.

Það sem ég óskaði eftir að fá fram hjá hv. formanni umhverfis- og samgöngunefndar varðaði XI. kaflann þar sem ég óttast að hér sé verið að flækja mál sem eru einföld í dag, setja mál undir tvö ráðuneyti, tvær ríkisstofnanir, og setja hluti sem hafa virkað fínt í hugsanlegt uppnám. Ég er bara ánægður ef það er tilfellið að nefndin sé að velta því fyrir sér af því að þá bætast við jákvæðar breytingartillögur sem ég lít svo á að fari til hæstv. ríkisstjórnar til þess að leggja þetta mál fram á nýju þingi næsta haust. (Gripið fram í: Það er rétt. Flott lokaorð.)